Ákvörðunin kærð og málið tekið fyrir

Dusty hefur áfrýjað dómi mótastjórnar um viðureign þeirra.
Dusty hefur áfrýjað dómi mótastjórnar um viðureign þeirra. Samsett mynd

Leik Dusty og Ármanns í Counter-Strike fyrr á árinu virðist enn ekki vera lokið þó viðureign þeirra hafi farið fram 3. janúar síðastliðinn. Leikmaður Dusty átti í vandræðum með tölvubúnað sinn og gat ekki spilað leikinn nema með skertri getu.

Samkvæmt reglubók Rafíþróttasambandsins á lið rétt á því að skipta leikmanni út, háð samþykki, ef atvik sem þetta á sér stað.

Samkvæmt heimildum Mbl.is sendi Dusty ósk um leikmannaskipti í stöðunni 5-5 en því var hafnað.

Hálftíma síðar fengu þeir leiðréttingu og heimild til að skipta um leikmann en þá taldi Dusty það langt liðið á leikinn að leikmannaskipti yrðu þeim ekki hagstæð, enda tekur tíma að venjast andstæðingum og spila sig í gang.

Eins og staðan í deildinni er núna eru Dusty jafnir Atlantic Esports í fyrsta sæti en Atlantic Esports eru með fleiri unnar lotur. 

Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands, RÍSÍ.
Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands, RÍSÍ. Ljósmynd/Rafíþróttasamtök Íslands

Fram og til baka

Eftir að fyrrnefndum leik lauk ákvað mótastjórn að leikurinn skyldi endurtekinn þar sem farið var gegn reglum Rafíþróttasambandsins hvað leikmannabreytingar varðaði.

Í reglunum segir að „í alvarlegum tæknilegum aðstæðum þar sem leikmaður getur ekki spilað leikinn með sömu hæfni og áður þá gegn samþykki mótastjórnar mega úrvalsdeildarlið skipta út þeim leikmanni innan tæknilegrar pásu“. 

Leikurinn var dæmdur ógildur strax eftir leik af mótastjórn og átti að endurtaka hann þann 31. janúar.

Ákvörðun tekin

Í Facebook hóp íslenskra Counter-Strike spilara tilkynnti mótastjórnin svo síðar að mistök hefðu verið gerð og að þeim væri ekki heimilt að ógilda leiki eftir svona atvik.

Niðurstaðan í málinu.
Niðurstaðan í málinu. Skjáskot/Facebook

Því verði leikurinn ekki endurtekinn nema ef áfrýjunarnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að svo skuli vera. Reglur um skiptingar leikmanna verða svo skoðaðar fyrir næsta tímabil. 

Í samtali við Aron Ólafsson, framkvæmdastjóra RÍSI tekur hann fram að Rafíþróttasamtökin taki enga afstöðu í svona málum fyrr en komið er í ljós hvernig dómur áfrýjunarnefndar fari. 

Staðan í deildinni.
Staðan í deildinni. Skjáskot/Frag

„Þetta mál snýst um túlkun á reglunum, það þarf bara bíða eftir að áfrýjunarnefnd gefi út afstöðu sína. Þarna kemur inn mikilvægi þess að hafa áfrýjunarnefnd sem passar sanngirni og vinnur þvert á alla starfsemi RÍSÍ.“

Var mótastjórn óheimilt að taka þessa ákvörðun?

Aron segir reglurnar ekki leyfa endurtekningar á leikjum en það er einmitt ágreiningsmál Dusty og mótastjórnar.

Leikmannaskiptingar séu leyfðar í ákveðnum aðstæðum en Dusty fær fyrst skilaboð um að þeir mættu ekki skipta sínum leikmanni út sem svo var dregið til baka.

„Reglulega gerist það að smá tæknilegir örðuleikar verða í netspilun en við þurfum að finna út hvernig við ætlum að nálgast þetta. Hvort leikur sé einungis spilaður ef allir eru með fullkomnar tengingar eða hvenær við þurfum að grípa inn í leikinn.“

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að mótastjórn hafi viðurkennt að hafa brotið reglur mótsins þegar þeir bönnuðu skiptingu Dusty. 

Hvað geta lið gert í svona aðstæðum?

Hægt er að taka tæknilegar pásur og neyðarskiptingar þegar ekkert gengur samkvæmt reglum Rafíþróttasamtakanna. Þar af leiðandi verður áhugavert að sjá hvernig áfrýjunarnefnd leggur mat á þetta atvik og hvernig mótastjórn tekur á umræðunni eftir mót.

„Eftir mótin fer mótastjórn yfir öll mál og fer yfir hvernig má bæta reglur. Hvernig það fer svo eftir mót er alveg undir mótastjórn komið. Við viljum tryggja sanngirni og að öll lið þurfi að standa jöfn.“

Hvað fór úrskeiðis í þessu máli?

Að mati Arons er málið flókið „Þetta er flókið mál en spennandi, þetta reynir á innviðina sem hafa reynst mjög góðir og áfrýjunarnefnd hefur afgreitt hluti sannfærandi, hún er fyrir þetta og þetta er algjörlega að varða í okkar leið og sýna hversu sterkir innviðir okkar eru.“

Að lokum segir Aron: " Ég er sannfærður um að allir fái sanngjarnan úrskurð út frá reglum, það skiptir okkur öllu máli, svo þegar mótið er skoðað og athugað hvort þurfi að breyta reglunum kemur svo í ljós.“ Þess má geta að Aron situr ekki í mótastjórn né áfrýjunarnefnd en hann, eins og allir aðrir, bíður spenntur eftir úrskurði í þessu máli.

Það er svo sannarlega mikið í húfi.

Uppfært 22.00: Upprunalega var ritað: „Leikmaður Dusty átti í vandræðum með að ná stöðugri tengingu við netþjón Ljósleiðaradeildarinnar og gat því ekki spilað leikinn með fullri getu.“ en í ljós kom, eftir samtal við Mótastjórn Counter-Strike, að spilari átti ekki í vandræðum með tengingu við netþjóninn heldur tölvubúnað sinn.

Hlustar þú á tónlist þegar þú spilar?

  • Já að sjálfsögðu
  • Nei alls ekki
  • Stundum og stundum ekki
mbl.is