Bjóða foreldrum að spila frítt í Arena

Eva Margrét Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Arena og formaður RÍSÍ.
Eva Margrét Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Arena og formaður RÍSÍ. mbl.is/Hákon Pálsson

Rafíþróttahöllin Arena heldur áfram að vaxa í vinsældum og er nokkuð algengt að sjá foreldra koma þangað með börnin sín svo þau megi leika sér í tölvum staðarins. Nú geta foreldrar fengið að spila frítt með börnunum sínum í hverjum mánuði.

Síðasta sunnudag hvers mánaðar fara fram svokallaðir fjölskyldudagar í Arena, en þeir eru haldnir í þeim tilgangi að hvetja foreldra til þess að eyða meiri tíma með börnunum sínum.

Á fjölskyldudögum geta foreldrar, eða forráðamenn, barna fengið að spila frítt með börnunum frá klukkan 11:30 til klukkan 18:00.

Dýrmætar minningar

Þannig geta foreldrar fengið að njóta gæðastunda með börnunum betur með því að taka meiri þátt í áhugamálum þeirra og spilað með þeim í stað þess að horfa á eða skreppa frá á meðan.

„Við byrjuðum að hafa svona dag rétt fyrir jól, við höfum tekið eftir því að margir foreldrar koma með börnin sín í Arena til að spila en um leið og krakkarnir eru farnir í tölvuna þá sitja foreldrar hjá og láta sér leiðast eða skjótast í búðir á meðan,“ segir Eva Margrét Guðnadóttir, rekstrarstjóri Arena og formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, í samtali við mbl.is.

„Auðvitað er það gott og blessað en okkur langaði að hvetja foreldra eða forráðamenn til þess að prófa að spila með krökkunum sínum.“

Þá minnist hún þess er hún var yngri og spilaði tölvuleiki með mömmu sína sér við hlið. Þá hjálpaði hún Evu við að klára erfiðustu borðin og sitja minningar þessar ennþá með Evu.

„Ég held meira að segja að sá stuðningur og áhugi sem mamma sýndi tölvuleikjaspilun minni hafi verið ástæðan fyrir því að ég spila en tölvuleiki í dag.“

Tvíburasysturnar Eva Margrét Guðnadóttir og Alma Guðrún Guðnadóttir með móður …
Tvíburasysturnar Eva Margrét Guðnadóttir og Alma Guðrún Guðnadóttir með móður sinni, Þórey Þöll. Ljósmynd/Aðsend

Fá að „kenna“ fullorðna fólkinu

Eva segir fólk alls ekki þurfa að kunna á tölvuleikina sem börnin eru að spila í Arena, heldur snúist þetta aðallega um samveruna og að styrkja tengslin.

„Það þarf alls ekki að vera þannig að fólk þurfi að kunna tölvuleikinn til þess að spila, svo finnst krökkunum fátt jafn skemmtilegra að fá að „kenna“ fullorðna fólkinu á uppáhalds leikinn sinn.“

„Þetta er frábær leið til þess að eiga skemmtilega stund saman, tengjast og sýna áhugamáli barnanna sinna athygli!“

Hlustar þú á tónlist þegar þú spilar?

  • Já að sjálfsögðu
  • Nei alls ekki
  • Stundum og stundum ekki
mbl.is