KRAFLA gæti unnið sögulegt afrek á morgun

Mynd frá úrslitakvöldi FRÍS í Arena.
Mynd frá úrslitakvöldi FRÍS í Arena. Kristinn Magnússon

Úrslitin í íslensku Valorant-deildunum verða ráðin á morgun þegar efstu tvö lið í báðum flokkum, opnum- og kvennaflokki, etja kappi við hvort annað í rafíþróttahöllinni Arena.

Síðastliðinn sunnudag voru undanúrslitin spiluð og kom þá í ljós að liðin Dusty og 354 Esports mætast í úrslitaviðureign opna flokksins en KRAFLA og ATX í úrslitaviðureign kvennaflokksins.

Þetta er þriðja tímabil Valorant-deildanna á Íslandi en ólíkt fyrri tímabilum var eingöngu keppt í tvöfaldri útsláttarkeppni að þessu sinni.

Dusty og KRAFLA eru núverandi deildarmeistarar í sínum flokki og reynir því á bæði liðin að verja titilinn sinn.

Gætu unnið sögulegt afrek

Þá vekur sérstaka athygli að KRAFLA hefur unnið deildina í tvígang, eða frá því að kvennaflokkurinn var stofnaður. Leikmenn KRÖFLU eiga því möguleika á að vinna sögulegt afrek í íslensku Valorant-senunni með því að bera sigur úr býtum annað kvöld.

Þá hafa þær ekki aðeins varið titilinn sinn sem deildarmeistarar. Heldur gerast þær einnig þrefaldir deildarmeistarar, ósigraðar frá stofnun kvennaflokksins.

Keppt verður í rafíþróttahöllinni Arena og verður sýnt frá úrslitunum í beinni útsendingu á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands frá klukkan 17:00 á morgun.

Hlustar þú á tónlist þegar þú spilar?

  • Já að sjálfsögðu
  • Nei alls ekki
  • Stundum og stundum ekki
mbl.is