„Þá byrjaði ferillinn minn almennilega“

Ljósmynd/Hákon

Magnús Hinrik Bragason, einnig þekktur sem „avvii“, er átján ára rafíþróttamaður sem keppir í Overwatch með einu sterkasta liðinu á Íslandi, Atgeirum.

Hann hefur stundað rafíþróttir í nokkur ár, en ferillinn hans hófst í raun árið 2018 þegar hann tók þátt í opnu móti í Overwatch á netinu. Þá keppti hann með handahófskenndum leikmönnum og kunni vel við, en hann stundaði þetta í u.þ.b. tvö ár.

„Síðan byrjaði Almenni bikarinn árið 2020, þá heyrði Krizzi félagi minn í mér og bað mig um að vera með í liðinu sem hann og félagar hans voru að stofna,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

„Þá byrjaði ferillinn minn almennilega.“

Spilaði í fanginu hjá pabba

Magnús hefur spilað tölvuleiki í mjög mörg ár, en hann byrjaði ungur að spila tölvuleiki, aðeins fjögurra eða fimm ára gamall. Þá sat hann í fanginu á pabba sínum og spilaði með honum tölvuleikinn World of Warcraft.

„Ég spilaði tæknilega fyrst World of Warcraft þegar ég var fjögurra til fimm ára gamall, árið 2008, þegar ég var í fanginu hjá pabba að hlaupa um í Dalaran og gera verkefni (e. quest) í leiknum.“

„Síðan þegar ég varð svona sex eða sjö ára, þá var ég alltaf að búa til nýja klassa í WoW og hækka um reynsluþrep (e. level) fram að svona reynsluþrepi tíu.“

Þá gerði hann nýja persónu í öðrum klassa aftur og aftur, því hann sá einhvern flottan í hæsta reynsluþrepi í stórborgum World of Warcraft og langaði til þess að vera eins og hann.

Enn þann dag í dag kíkir hann í World of Warcraft, þá þegar hann er ekki að spila Overwatch.

Á lista yfir bestu leikmenn Overwatch

Keppnisskapið leynir sér þó ekki en hann spilar helst á móti öðrum leikmönnum í PvP þegar hann kíkir í WoW. Hann spilar líka tölvuleikinn Valorant, en segist ekki endast lengi í honum vegna þess að hann verður stundum svo pirraður.

Magnús hefur það að markmiði að komast í landsliðið í Overwatch og taka þátt í heimsmeistaramótinu, en hann vill komast eins langt og hægt er í Overwatch-keppnissenunni.

Óhætt er að segja að hann sé byrjaður að skapa sér nafn í senunni, en ásamt því að spila með einu sterkasta liði Íslands um þessar mundir, Atgeirum, þá hefur hann einnig komið sér á lista yfir 500 bestu leikmennina í Overwatch.

„Hápunkturinn minn var örugglega þegar við unnum fyrsta helgarmótið í Overwatch á móti Böðlum, þótt að það var smá „incomplete roster“ hjá þeim. Var þetta samt geggjað augnablik.“

Gerir það gott með Atgeirum

Atgeirar hafa verið að gera það mjög gott undanfarið en líkt og kemur fram hér að ofan eru Atgeirar með sterkustu liðunum á Íslandi nú.

„Það gengur bara frekar vel í Atgeirum, en við erum samt ekki að æfa saman eins mikið og við viljum. Um leið og við byrjum að æfa meira, þá ætti ekkert lið að geta unnið okkur held ég,“ segir Magnús.

„Það sem gerir mest fyrir mig er bara tilfinningin að vinna erfitt lið, það er geggjað. Ég elska líka að spila fyrir framan fólk í beinni útsendingu með lýsendum og öllum pakkanum.“

Leikmenn Atgeira, frá vinstri: Steinn Kári Pétursson, Kristján Logi Guðmundsson, …
Leikmenn Atgeira, frá vinstri: Steinn Kári Pétursson, Kristján Logi Guðmundsson, Magnús Hinrik Bragason, Aron Páll Símonarson, Rúnar Óli Eiríksson. Í miðjunni er Fannar Logi Bragason, þjálfari Atgeira. mbl.is/Óttar Geirsson

Bakar á bak við glerið

Magnús segir blaðamanni að mikilvægt sé að eiga góða mús þegar tölvuleikir eru spilaðir, en sjálfur spilar hann með Logitech G Pro Superlight. Að sama skapi hlustar hann mikið á tónlist, og þegar hann keppir með Atgeirum hlustar hann helst á tónlistarmenn eins og Kef Lavík og MF Doom svo einhverjir séu nefndir.

Fyrir utan rafíþróttirnar leggur hann hins vegar stund á bakaranám og vinnur flesta daga í bakaríinu í sænsku húsgagnaversluninni, IKEA.

„Það sem ég geri dagsdaglega er að baka. Ég er nefnilega bakaranemi hjá IKEA og þið getið séð mig í bakaríinu í gegnum glerið í IKEA.“

Þá er hægt að koma auga á Magnús baka snúða, ostaslaufur, brauð og margt fleira annað en vandræði í gegnum glerið.

Væri fyndið að þýða leikinn

Aðspurður segir hann að fyndið væri að spila tölvuleikinn Overwatch á íslensku, og myndi hann helst vilja sjá þann leik þýddan yfir á íslensku, í stað einhvers annars.

Leikurinn hefur þó ekki verið þýddur yfir á íslensku enn þá svo Magnús spilar hann bara á ensku. Það er hins vegar ekki svo auðveldlega hlaupið að því að sjá hann spila í beinni útsendingu, nema þá á rafíþróttamóti sem streymt er frá.

Liðsfélagi hans er aftur á móti duglegur að streyma, en hann þekkist undir nafninu Oklokarr og er hægt að finna hann á streymisveitunni Twitch.

Að lokum þakkar og hælir hann öllum sem vinna í kringum liðið Atgeira en einnig aðdáendum sínum, sem hann kallar „Avvii-goons“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert