„Ég held að fólk tali bara ekki nógu mikið um þetta“

Kleópatra Thorstensen vann glænýja fartölvu frá Tölvutek í Sims 4-hönnunarkeppni …
Kleópatra Thorstensen vann glænýja fartölvu frá Tölvutek í Sims 4-hönnunarkeppni rafíþróttavefsins.

Kleópatra Thorstensen vann fyrstu hönnunarkeppni rafíþróttavefsins í Sims 4 nú á dögunum og fékk því glænýja fartölvu frá Tölvutek í verðlaun.

Í samtali við mbl.is segist hún ætla að gefa litlu systur sinni tölvuna í fermingargjöf. Þá getur hún unnið skólaverkefni í sinni eigin tölvu og við það hætt að „stelast“ í tölvu Kleópötru.

Spilað allar kynslóðir leiksins

Þegar Sims 4 kom út, árið 2014, keypti hún leikinn um leið en það voru þó langt í frá fyrstu kynni hennar af leiknum, þar sem hún hefur spilað allar kynslóðir leikjanna.

„Ég er búin að spila síðan leikurinn kom út. Ég er búin að spila þá alla, en þetta eru náttúrlega svolítið gamlir leikir og ég er ekki alveg nógu gömul til að hafa spilað þá alla síðan þeir komu út sko,“ segir Kleópatra í samtali við mbl.is.

Það gefur augaleið að Kleópatra hafi fest yndi við þennan leik, enda er hann mikið spilaður á hennar heimili. Að sögn Kleópötru spilar hún leikinn daglega, eða „miklu lengur en þarf kannski“.

Eldhúsið hennar Kleópötru Thorstensen í Sims 4-hönnunarkeppninni.
Eldhúsið hennar Kleópötru Thorstensen í Sims 4-hönnunarkeppninni. Skjáskot/The Sims 4

Á heimavelli við hönnunina

Þá spilar hún aðallega byggingarhluta leiksins og kann miklu betur við það en að fjölskyldulífshlutann. 

„Mér finnst langskemmtilegast að byggja húsin og svona. Ég er mjög mikið að deila því sem ég geri og mér finnst langskemmtilegast að gera eldhúsin.”

Var hún því býsna ánægð með að vera í raun á heimavelli í hönnunarkeppninni þar sem keppendur áttu að hanna eldhús að þessu sinni.

„Þegar ég var að hanna eldhúsið þá hugsaði ég bara út í hvað mér myndi finnast hentugt inni í mínu eigin eldhúsi. Hvað ég myndi vilja hafa, og hvernig ég myndi vilja að það liti út,“ segir Kleópatra.

Eldhúsið hennar Kleópötru Thorstensen í Sims 4-hönnunarkeppninni.
Eldhúsið hennar Kleópötru Thorstensen í Sims 4-hönnunarkeppninni. Skjáskot/The Sims 4
Eldhúsið hennar Kleópötru Thorstensen í Sims 4-hönnunarkeppninni.
Eldhúsið hennar Kleópötru Thorstensen í Sims 4-hönnunarkeppninni. Skjáskot/The Sims 4
Hönnun Kleópötru Thorstensen í tölvuleiknum Sims 4.
Hönnun Kleópötru Thorstensen í tölvuleiknum Sims 4. Skjáskot/The Sims 4

Aðeins upprunalegir hlutir

Í keppninni var fátt um reglur sem héldu aftur af sköpunargleðinni þar sem allir aukapakkar sem og mods voru leyfileg við hönnunina. Er því athyglisvert að Kleópatra notaði engin mods við að hanna eldhúsið sitt.

„Þetta er allt úr pökkunum, ég nota ekki mods útaf því að síðan er kannski eitthvað ekki að virka og þá þarf maður að fara að leita að því og það er vesen,“ segir Kleópatra en bætir við að það hefði samt verið gaman að nota þau.

„Þau líta alltaf mjög vel út og það er margt sem vantar inn í leikinn. Ég sá einmitt að aðrir voru búnir að nota mods og það leit mjög vel út hjá þeim.”

Notaði leikinn í raunheimum

Hún hannaði eldhúsið með það í huga hvernig hún sjálf myndi vilja að það liti út og eins hvað hún myndi vilja hafa í eldhúsinu sínu. Þá segir hún blaðamanni einnig frá því að leikurinn hefur gagnast henni við flutninga eða breytingar á heimilinu.

„Ég hef notað leikinn áður, þegar ég hef verið að færa til eða flytja. Þá hef ég sett upp rýmið í leiknum bara til að sjá hvernig allt passar.“

„Það er hægt að reikna það út. Ég hef séð aðra gera það en ég er ekki nógu flink í því.“

Hönnun Kleópötru Thorstensen í tölvuleiknum Sims 4.
Hönnun Kleópötru Thorstensen í tölvuleiknum Sims 4. Skjáskot/The Sims 4

Fólk tali ekki nógu mikið um leikinn

Sims-keppnir eru ansi fátíðar hér á landi og var hún því nokkuð hissa er hún rak augun í auglýsingu um hönnunarkeppnina.

„Síðan tók ég eftir Sims-merkinu og hugsaði, bíddu þetta er eitthvað íslenskt og eitthvað með Sims. Þannig ég ákvað að tékka á þessu. Ég sendi á vini mína svo þeir gætu líka tekið þátt því þeir eru allir að spila Sims.“

Þetta var þó ekki í fyrsta skiptið sem Kleópatra tekur þátt í Sims-keppni, heldur var fyrsta ferð hennar í rafíþróttahöllina Arena í þeim tilgangi að taka þátt í Sims-keppni. 

„Ég held að fólk tali bara ekki nógu mikið um þetta. Annar hver einstaklingur sem ég tala við, sérstaklega kvenkyns, annað hvort spilar leikinn eða á hann.“ segir Kleópatra og bætir við að hún hafi ekki áttað sig á því hve margir spiluðu leikinn fyrr en vinkona hennar sýndi henni það á netinu.

„Margir hafa áhuga á hönnun og svona, og þessi leikur býður einmitt upp á það. Það er gaman að sjá hvað fólk gerir með leikinn, það eru svo margir möguleikar í honum.“

Hönnun Kleópötru Thorstensen í tölvuleiknum Sims 4.
Hönnun Kleópötru Thorstensen í tölvuleiknum Sims 4. Skjáskot/The Sims 4

Stækka samfélagið í leiknum

Í leiknum sjálfum er m.a. hægt að fylgja öðrum leikmönnum í gegnum sérstakt gallerí, þar sem þeir geta deilt myndum af því sem þeir hafa skapað innanleikjar. Að sama skapi geta leikmenn afritað herbergi, byggingar og annað slíkt í gegnum þetta gallerí.

Sigtýr Ægir, einn þeirra sem komst áfram í úrslit í hönnunarkeppni rafíþróttavefsins, hafði einmitt látið rafheitið sitt, SIMSTYR, fylgja með og var Kleópatra aldeilis ánægð með það.

Hún segist ekki hafa verið lengi að fletta honum upp og byrja að fylgja honum þar sem henni finnst mjög gaman að finna nýtt fólk þarna, og hefði þess vegna viljað sjá fleiri rafheiti fylgja.

Kleópatra er einnig dugleg við að deila sköpunarverkum sínum í gegnum galleríið og að fylgjast með öðrum. Til þess að skoða myndir af því sem Kleópatra hefur búið til í Sims, eða fá að afrita í eigin leik, er hægt að fletta henni upp á galleríinu undir nafninu kleopatrath.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert