Þrettán ára vonarstjarna Íslands með á Evrópumótinu

Ljósmynd/Unsplash/Alex Haney

Eftir harða undankeppni sem fór fram í gær er nú orðið ljóst hvaða lið fá að keppa fyrir hönd Íslands í tölvuleikjunum Counter-Strike: Global Offensive og Dota 2 á Evrópumóti IESF, sem leiðir að heimsmeistaramótinu í Rúmeníu.

Í opna flokk tölvuleiksins CS:GO keppir Dusty fyrir hönd Íslands meðan Fylkir fer sem flaggskip Íslendinga bæði í kvennaflokk CS:GO og Dota 2.

Vonarstjarna á toppnum

Þess má geta að þrettán ára vonarstjarna Íslendinga í Dota 2, Atli Snær „Ic3Fog“, er nú kominn í landsliðið þar sem Fylkir vann undankeppni gærkvöldsins þrátt fyrir erfiðan leik við Kórdrengi.

Kórdrengir mættu í undankeppnina með tvo nýja leikmenn sem voru búnir að vinna sig upp í hæsta getustig innanleikjar, Immortal. Það dugði hins vegar ekki til að fella nýkrýnda deildarmeistara Kraftvéladeildarinnar, Fylki.

Tökum almennilega þátt í fyrsta skiptið

Rafíþróttaliðið Dusty hampaði deildarbikarnum í Ljósleiðaradeildinni fyrr í vikunni og hefur jafnframt verið að spreyta sig í erlendu senunni.

Þetta þýðir að tveir nýkrýndir deildarmeistarar halda á Evrópumótið með kvennaliði Fylkis í CS:GO.

Næstu helgi fara seinni undankeppnir fyrir Evrópumótið fram og verður þá keppt í eFótbolta og bardagaleiknum Tekken 7. 

„Ég held að íslensku liðunum eigi eftir að ganga betur í þessari keppni en öðrum erlendum keppnum sem þau hafa verið að taka þátt í,“ segir Kristinn Halldórsson, í mótastjórn RÍSÍ, og bendir um leið á að við eigum til mjög sterk lið í Counter-Strike: Global Offensive.

Að sama skapi segir hann árið vera hálfgerða prófraun fyrir Íslendinga, þar sem þetta er í fyrsta skiptið sem þjóðin fær almennilega að taka þátt í keppnum á vegum IESF.

Keppti á síðasta ári

Á síðasta ári flugu nokkrir Íslendingar til Balí í Indónesíu þegar síðasta heimsmeistaramót IESF fór fram, en þá spreytti Tindur Örvar „Tiindur“ sig í eFótbolta. 

Verður því fróðlegt að sjá hvort að hann muni keppa aftur undir merkjum Íslands á Evrópumótinu eða hvort að einhver annar muni sigra hann.

Vert er að nefna að meðal Íslendinga sem flugu til Balí á heimsmeistaramótið var Emelía Ósk „MSA“, en hún hefur unnið gott starf innan rafíþrótta á Íslandi og er jafnframt nýjasti viðmælandi þáttarins Settöpp.

mbl.is