Græna pípan er í raun og veru ponta

Adam skipuleggur fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart.
Adam skipuleggur fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart. Ljósmynd/Norris Niman

Sérsmíðuð ponta verður sett upp í rafíþróttahöllinni Arena eftir um eina viku fyrir Mario-fögnuðinum sem fer fram frá 10. til 12. mars, en þá verður höllin skreytt í bak og fyrir meðan fjöldi afþreyinga verða í boði.

Adam Leslie Scanlon, viðburðarstjóri og stofnandi Next Level Events, hefur verið önnum kafinn við að smíða Mario-krónur, pontu og fleira til undirbúnings fyrir helgina. Þá verður hölllin svipað skreytt og á síðasta ári, þegar fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart fór fram.

„Við eigum ennþá öll pappaspjöldin frá því í fyrra,“ segir Adam í samtali við mbl.is og bætir við að hann hafi einnig verið að búa til sínar eigin skreytingar.

„Ég bjó til græna pípu, en bara svo það sé á hreinu þá hefur hún ekki að geyma göng heldur er þetta ponta. Pontupípan mín ef þú vildir vera svo væn, til þess að flytja ræður.“

Adam Leslie Scanlon, stofnandi Next Level Games, smíðaði sérstaka pípupontu …
Adam Leslie Scanlon, stofnandi Next Level Games, smíðaði sérstaka pípupontu fyrir Mariofögnuðinn sem er framundan. Ljósmynd/Aðsend

Juan hjálpsamur

Í upphafi var hugmynd Adams sú að pontan yrði hluti af sérhönnuðum ljósmyndabás en í ljós kom að það myndi ekki passa inn í kostnaðaráætlunina.

Adam hafði samband við manninn sem málaði Super Mario-vegginn í Vesturbænum, Juan, og spurði hann spjörunum úr í sambandi við t.d. litina og nefnir sérstaklega hve vingjarnlegur og hjálpsamur hann var.

Planið var að búa til pípuna, einn annan stóran hlut og bakgrunn úr tveimur stórum krossviðsplötum. Bakgrunnurinn og græna pípan myndi þá gera fólki kleift að taka myndir af sér líkt og það væri í raun og veru innan heim Mario. 

Hér má sjá pípupontuna í bígerð.
Hér má sjá pípupontuna í bígerð. Ljósmynd/Aðsend

Pípan máluð á einni viku

„Ef ég á að vera hreinskilinn, þá hafði ég hvorki nægan tíma né nægilegt pláss. Vinnan á bak við pípuna var ansi mikil, sérstaklega í sambandi með málninguna,“ segir Adam.

Það tók um sjö daga að mála pípuna þar sem hann málaði tvær umferðir af grunnmálningu, þrjár umferðir af venjulegri málningu og toppaði verkið síðan með því að mála tvær umferðir af glansandi málningu.

Pípupontan hans Adams.
Pípupontan hans Adams. Ljósmynd/Aðsend

Verði svo sannarlega á næsta ári

Ansi mikil vinna fór því í að smíða og fullkomna pípuna og segir Adam að talsvert meiri tími hefði farið í að búa til bakgrunninn fyrir ljósmyndabásinn ef svo stæði til. Enda var pípan aðeins máluð í einum lit, grænum, meðan bakgrunnurinn yrði málaður í mörgum mismunandi litum.

„Ég myndi vilja smíða bakgrunninn á jafn fagmannlegan hátt og Juan gerði þegar hann málaði Mario-vegginn í Vesturbænum,“ segir Adam en bætir við að á næsta ári verði bakgrunnurinn svo sannarlega smíðaður.

Hægt er að lesa nánar um viðburðinn á Facebook eða þar sem miðasalan fer fram, á Tix.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert