Þurfa að mæta með plan en ekki bara leika sér

Rafíþróttaliðið Dusty er eitt sigursælasta lið landsins og hefur unnið flesta titla sem eru í boði hér á landi. Liðið á keppnislið í Counter-Strike og Valorant.

Dusty er einnig með ungmennastarf og heldur úti æfingum fyrir börn á aldrinum 12-16 ára og býður upp á námskeið í Fortnite, Valorant, Counter-Strike og Overwatch. 

Þorsteinn Friðfinnsson er yfirþjálfari Dusty og einnig liðsmaður í keppnisliðinu í Counter-Strike. Hann sér um þjálfunina og setur upp æfingar samkvæmt stöðlum ECA-æfingakerfisins.

Hvað er mikilvægasta fyrir börn sem æfa tölvuleiki?

Þorsteinn segir það mikilvægasta við þjálfunina sé að skipuleggja sig vel. „Það þarf að setja markvisst niður plan, ekki bara leika sér og gera eitthvað, heldur þarf að ákveða hvað á að vera betri í hvort sem það er að skjóta, byggja eða hvað sem þarf að bæta sig í. Mæta og vera með plan.“

Tímarnir hjá Dusty skiptast upp í líkamlegar æfingar og eftir það setjast krakkarnir við tölvurnar og vinna markvisst að því að bæta sig.

Þorsteinn er nýjasti viðmælandinn í SETTÖPP og sýnir frá starfsemi Dusty. Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is