Vill sjá fólk í hlutverki Mario í Kópavogi

Adam Leslie Scanlon klár Mariofögnuðinn.
Adam Leslie Scanlon klár Mariofögnuðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mariofögnuðurinn í rafíþróttahöllinni Arena hefst á morgun með ratleik og stendur fögnuðurinn yfir alla helgina. Staðurinn hefur verið skreyttur í bak og fyrir svo í raun verður hægt að ganga inn í einskonar Mario-veröld meðan hann fer fram.

Adam Leslie Scanlon, viðburðarstjóri og stofnandi Next Level Events, hefur heldur en ekki sýnt mikinn metnað þegar hann hefur sett af stað einhverskonar viðburði en hann smíðar gjarnan og föndrar skreytingar sjálfur.

Prentað út Marioaura

Má þar nefna t.d. grænu pípupontuna sem hann smíðaði nú á dögunum fyrir Mariofögnuðinn en til viðbótar við hana hefur hann prentað út sérstaka Mario-aura, sem koma til með að spila stórt hlutverk í ratleiknum sem leiðir viðburðinn í garð annað kvöld.

„Hugmyndin með aurana er sú að ég vil að fólk safni þeim, alveg eins og í Mario-leikjunum,“ segir Adam en tvennskonar Mario-krónum verður hægt að safna. Annars vegar hefðbundinni krónu og annars vegar sjaldgæfari krónu sem merkt er með stjörnu í stað striks.

Með því að finna og hamstra stjörnumerktar Mario-krónur fá leikmenn einhver „svöl verðlaun“ en fyrir hefðbundnu krónurnar fá leikmenn „aðeins minna svöl verðlaun“.

„Á föstudaginn langar mig í rauninni að sjá fólk í hlutverki Marios. Það eru nokkrir hlutir sem Mario gerir innanleikjar sem hægt er að yfirfæra í raunheima.“

„Þeir hlutir sem ég hef nú þegar tekið upp eru að safna krónum og bjarga Fíkjuprinsessunni, eða Peach prinsessu, með því að leysa þrautir.“

Úrslitin sýnd í beinni útsendingu

Ratleikurinn hefst klukkan 18:00 en þar fyrir utan verður einnig spilað og keppt í ýmsum leikjum frá Nintendo, eins og Super Smash Bros, Mario Kart og Pokémón.

Streymt verður frá úrslitunum á sunnudaginn en sigurvegarar beggja leikja fá inneignarnótu fyrir safnútgáfu leiksins Zelda Tears of the Kingdom. 

Nánari upplýsingar má finna á Facebook og miðasala fer fram á Tix.is en streymt verður frá úrslitunum á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert