Vill sjá þessar breytingar í Counter-Strike 2

KSCERATO er einn besti Counter-Strike spilari Brasilíu.
KSCERATO er einn besti Counter-Strike spilari Brasilíu. Skjáskot/Liquipedia

Rafíþróttamaðurinn „KSCERATO“ spilar með Counter-Strike liðinu FURIA í Brasilíu. KSCERATO er einn besti spilari Brasilíu og kom fram í viðtali á dögunum þar sem hann tjáði óskir sínar um komandi uppfærslu á Counter-Strike. 

Undanfarna daga hafa spilarar leiksins beðið spenntir eftir næstu uppfærslu sem hefur fengið nafnið CS:GO 2 en uppfærslan mun hafa mikil áhrif á gæði og spilun leiksins.

Í gegnum tíðina hefur framleiðandi Counter-Strike, Valve, haldið í hefðirnar og breytingarnar eru oft smávægilegar.

Fleiri vopn

Hins vegar vill KSCERATO stærri breytingar, hann vill fá fleiri vopn í leikinn og keppnisumhverfi líkt því sem leikurinn Valorant býður upp á. Flest vopnin í Counter-Strike eru þau sömu og þegar leikurinn kom út fyrir utan vopnin Negev, Mag7 og Zeus rafbyssuna.

Rafbyssan Zeus.
Rafbyssan Zeus. Skjáskot/CSGO

Valorant býður upp á ánægjulegt keppnisumhverfi fyrir spilara en þar geta spilarar keppt án þess að hafa miklar áhyggjur af svindlurum.

Ef Counter-Strike spilari vill vera viss um að fá sanngjarna keppni og góðar tengingar við netþjóna þarf að leita annarra leiða. Hægt er að tengjast við forrit frá FACEIT eða ESEA og spila á þeirra eigin netþjónum við leikmenn sem eru með það markmið að ná lengra í leiknum.

FACEIT og ESEA bjóða upp á sitt eigið keppnisumhverfi og …
FACEIT og ESEA bjóða upp á sitt eigið keppnisumhverfi og taka hart á svindlurum. Samsett mynd

Ekki er víst hvað uppfærslan mun bera í skauti sér en spilarar bíða spenntir eftir því að frétta meira.

mbl.is