Fleiri hópuppsagnir í tækniheiminum

Amazon er einn eigenda streymisveitunnar Twitch.
Amazon er einn eigenda streymisveitunnar Twitch. Samsett mynd

Undanfarið hafa mörg tæknifyrirtæki þurft að segja upp starfsfólki til þess að reyna að minnka tekjutap. Stórfyrirtækið Amazon sagði upp 18.000 manns fyrr á árinu og nú bætir í því fyrirtækið tilkynnti að 9.000 manns til viðbótar yrði sagt upp.

Það gera 27.000 uppsagnir síðan í janúar.

Streymisveitan missir hóp fólks

Í þessum hópi eru um 400 manns sem vinna hjá streymisveitunni Twitch. Twitch kom á markað árið 2011 og hefur verið á gríðarlegri uppleið síðan þá en allir helstu streymarar heims nota Twitch.

Fyrr í mánuðinum sagði forstjóri Twitch upp störfum en hann hafði starfað hjá fyrirtækinu í meira en 16 ár. Þrátt fyrir að mikill fjöldi missi starfið sitt hjá Twitch er ekki víst að notendur muni taka eftir breytingum á síðunni enda hefur hún verið lengi til og litlar breytingar orðið milli ára.

Helsta ógn Twitch er þó ný streymisveita að nafni Kick sem reynir allt til þess að ná frægum streymurum frá Twitch og fá þá til að byrja að nota Kick. 

mbl.is