Næstum því fjórfalt fleiri keppendur í ár

Marín Eydal, einnig þekkt sem Mjamix í Gameverunni á GameTíví.
Marín Eydal, einnig þekkt sem Mjamix í Gameverunni á GameTíví. Ljósmynd/Aðsend

Rafíþróttahöllin Arena í Kópavogi umturnaðist í hálfgerða Super Mario-veröld fyrr í mánuðinum þegar Mariofögnuðurinn fór fram, en hann stóð yfir heila helgi.

„Helgin var alveg hreint frábær og allt gekk eins og í sögu,“ segir Marín Eydal, einnig þekkt sem Mjamix í Gameverunni á GameTíví, en hún var meðal þeirra sem stóðu á bak við viðburðinn.

„Mikill metnaður og góð samvinna einkenndi helgina og ég gæti ekki verið þakklátari fyrir alla vinnuna og hjálpina sem leiðtogar Super Smash Bros samfélagsins, starfsfólk RÍSÍ og Arena lögðu í viðburðinn.“

Adam Leslie Scanlon sýnir frá verðlaunum sem gefin voru á …
Adam Leslie Scanlon sýnir frá verðlaunum sem gefin voru á Mariofögnuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnu með yfirburðum

Föstudagurinn var að mati Marínar ansi fjölskylduvænn og telur hún sig aldrei hafa séð jafn marga í höllinni og þá.

„Keppendur yfirtóku svo PlayStation-pallinn og tölvusalinn í undankeppninni á laugardeginum sem var mjög gaman að sjá.“

Úrslitin í Mario Kart komu Marín síður en svo á óvart en það var hún Natasja Dagbjartardóttir, Íslandsmeistari í Mario Kart, sem bar glæstan sigur af hólmi líkt og oft áður.

MelihMegron vann í tölvuleiknum Super Smash Bros og segir Marín báða keppendur hafa unnið með yfirburðum.

Næstum því fjórfalt fleiri

Það sem kom henni hins vegar á óvart var fjöldi keppenda, en það voru tæplega hundrað manns sem skráðu sig til leiks í Smash Bros eða Mario Kart. Á síðasta ári voru aðeins um 25 skráningar sem þýðir að skráningu hefur fjölgað um tæplega fjórfalt á einu ári.

„Við stefnum á næsta Mario Kart-mót í ágúst og að endurtaka Mariofögnuðinn á næsta ári í samstarfi við Super Smash Bros-samfélagið á Íslandi,“ segir Marín og bætir við að það hafi verið ótrúlega gaman að vera hluti af svona vel heppnuðum viðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert