Opna fyrstu tölvuleiguna á Íslandi

Baldvin Már Baldvinsson og Finnur Snær Baldvinsson, stofnendur tölvuleigunnar Progamer.
Baldvin Már Baldvinsson og Finnur Snær Baldvinsson, stofnendur tölvuleigunnar Progamer. Ljósmynd/Aðsend

Bræðurnir Baldvin Már Baldvinsson og Finnur Snær Baldvinsson ryðja brautina fyrir nýrri tegund af leiguþjónustu hér á landi þar sem þeir hafa komið einni fyrstu tölvuleigu landsins á legg, Progamer.

Upphaf Progamer má rekja til lankvölds hjá Baldvin í desember, en þá ætlaði hann ásamt vinum sínum að spila saman tölvuleiki og gera sér glaðan dag.

„Það á enginn tölvur á mínum aldri, svo ég hugsaði með mér hvort það væri ekki hægt að leigja einhverjar leikjatölvur en svo var það bara hvergi í boði,“ segir Baldvin í samtali við mbl.is.

„Þá fengum við þessa hugmynd, að það væri bara fínt að leigja þetta út.“

Allt sem þarf til að spila

Þeir bræður létu ekki segja sér það tvisvar og stofnuðu fyrirtækið fyrir um það bil mánuði síðan og hafa leigt út leikjatölvur síðan þá.

Tölvuleigan Progamer býður upp á að PlayStation-tölvu eða sýndarveruleikagleraugu til útleigu með öllum aukahlutum sem þarf yfir heila helgi. Til viðbótar fylgir fjöldinn allur af tölvuleikjum til þess að spila en til stendur að bjóða einnig upp á borðtölvu til útleigu.

„Þegar ég var yngri, þá vorum við alltaf með lan í bílskúrnum,“ segir Baldvin og minnist þess þegar bera þurfti þungar tölvur milli húsa til þess að spila með vinum sínum.

„Nú á enginn tölvu í dag sem ég þekki, allir með börn og vinnandi.“

Vegna þessa telur hann tilvalið fyrir fyrirtæki eða aðra hópa að geta leigt sér leikjatölvur fyrir helgina og jafnvel upplifað einhverja nostalgíu í góðum félagsskap.

Nánar um leigu á leikjatölvum og er að finna á heimasíðu fyrirtækisins, progamer.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert