„Sveitti Skyrim-spilarinn Marín væri í sjokki!“

Marín Eydal, tölvuleikjapía er einnig þekkt sem Mjamix eða Gameveran …
Marín Eydal, tölvuleikjapía er einnig þekkt sem Mjamix eða Gameveran í GameTíví. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhugi landsmanna á rafíþróttum, tölvuleikjum og streymendum heldur áfram að vaxa og ber ferill Marínar Eydal, Gameverunnar á GameTíví, augljós merki um það.

Í síðustu viku flutti hún fyrirlestur um rafíþróttir og tölvuleikjastreymi, nokkuð sem hana hefði ekki órað fyrir á síðasta ári þegar hún sjálf byrjaði að streyma undir rafheitinu Mjamix.

Farið um víðan völl 

Síðastliðinn miðvikudag flutti hún fyrirlestur um tölvuleikjastreymi og rafíþróttir fyrir nemendur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Fór hún þá meðal annars yfir atriði sem hún hefði sjálf viljað vita áður en hún byrjaði að streyma og sömuleiðis var streymisbúnaður ræddur.

„Við fórum yfir smá sögu, streymishugbúnað, gagnagreiningu, rafíþróttir á Íslandi og margt fleira,“ segir Marín í samtali við mbl.is og bætir við að hún sé enn að læra nýja hluti og eigi margt eftir ólært.

„Þetta var alveg yndislegur hópur sem tók á móti mér með fullt af pælingum og skemmtilegum spurningum.“

Marín Eydal, tölvuleikjapía er einnig þekkt sem Mjamix eða Gameveran …
Marín Eydal, tölvuleikjapía er einnig þekkt sem Mjamix eða Gameveran í GameTíví. mbl.is/Kristinn Magnússon

Byrjaði að rúlla í janúar

Marín byrjaði að streyma í janúar á síðasta ári og má segja að boltinn hafi byrjað að rúlla þaðan.

Síðan þá hefur hún verið í ýmsum hlutverkum innan tölvuleikjasamfélagsins og í rafíþróttaheiminum en hún hefur t.d. komið að skipulagningu tölvuleikjaviðburða, lýst leikjum og flytur nú fyrirlestra um hennar helsta áhugamál ásamt því að vera með sinn eigin þátt á GameTíví.

„Sveitti Skyrimspilarinn Marín fyrir tíu árum væri í sjokki!“

„Það er ótrúlega gefandi að vera hluti af tölvuleikjasamfélaginu á Íslandi og fá að blaðra um vinnuna á bak við tjöldin, en enn þá meira gaman að finna fyrir áhuga fólks.“

mbl.is