Var vængmaður Edda þegar hann kynntist konunni

Eðvarð Þór Heimisson og Þorsteinn Friðfinsson.
Eðvarð Þór Heimisson og Þorsteinn Friðfinsson. Ljósmynd/RÍSÍ

Ber er hver að baki nema sér bróður eigi en vinirnir og liðsfélagarnir, Þorsteinn Friðfinnsson og Eðvarð Þór Heimisson fóru heim með stóra vinninginn, flug og ferð til Danmerkur, eftir glæstan sigur á vængmannamótinu í Counter-Strike: Global Offensive.

Æfðu sig ekki mikið

Á vængmannamótinu skráðu keppendur sig til leiks ásamt sínum allra besta vængmanni í von um að vinna flug og ferðalag til Kaupmannahafnar í nóvember og á úrslitakeppni hausttímabils Blast-mótaraðarinnar. 

Þorsteinn Friðfinsson og Eðvarð Þór Heimisson, vængmenn sem fóru saman …
Þorsteinn Friðfinsson og Eðvarð Þór Heimisson, vængmenn sem fóru saman heim með stóra vinninginn á vængmannamótinu. Ljósmynd/Aðsend

Vængmannamótið fór fram með nokkuð óhefðbundnu sniði þar sem vanalega er keppt í fimm manna liðum, en ekki tveggja.

„Þetta var virkilega skemmtilegt mót að taka þátt í, skemmtileg tilbreyting að keppa tveir á móti tveimur,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is og bætir Eðvarð við að mótið hafi gengið alveg ótrúlega vel.

Þrátt fyrir að vel hafi gengið á mótinu æfðu þeir sig í rauninni ekki sérstaklega fyrir mótið, en þeir hafa aftur á móti verið liðsfélagar í fimm ár en þeir keppa fyrir hönd Dusty í CS:GO.

Goðsagnakenndur vængmaður

Ljóst er að þeir Þorsteinn og Eðvarð vinni vel saman og telja þeir sig jafnframt vera góða vængmenn.

„Ég er geggjaður vængmaður fyrir Edda, hann getur vottað það,“ segir Þorsteinn og vísar þá í Eðvarð, sem gjarnan er kallaður Eddi.

Þorsteinn vill reyndar meina að hann sé ekki bara geggjaður, heldur í rauninni goðsagnakenndur vængmaður og skýrir nánar frá.

„Ég var vængmaðurinn hans Edda þegar hann kynntist konunni sem hann er að eignast barn með núna,“ segir Þorsteinn.

Fara ekki saman til Danmerkur

Í samtali við mbl.is tekur Eðvarð undir orð Þorsteins, eða segir hann hafa verið ágætan vængmann en bætir þó við að hann sjálfur sé enn betri vængmaður. Þeir vinir komast þó ekki saman til Danmerkur í nóvember þar sem Eðvarð verður önnum kafinn við barneignir. 

„Ég hefði verið ógeðslega til í að fara á Blast en ég og Rósa eigum von á barni í október og komumst því ekki, enda örugglega á því að selja miðann minn,“ segir Eðvarð.

Þorsteinn heldur hins vegar í langferð til Danmerkur og verður í hópi Íslendinga sem ætla saman á úrslitakeppnina.

„Get ekki beðið eftir að fara út að horfa á Blast í Nóvember, hef aldrei farið út að horfa á svona stóran viðburð í Counter Strike,“ segir Þorsteinn og bætir við að þetta verði veisla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert