Fyrstur til þess að ljúka tölvuleikjaþjálfun

Sæljónið Spike spilar tölvuleiki.
Sæljónið Spike spilar tölvuleiki. Skjáskot/USNAVY

Samkvæmt tilkynningu frá bandaríska sjóhernum virðist takast vel að leyfa sæljónum að spila tölvuleiki. Í tilkynningunni segir að sæljónin elski að hoppa upp á bakkann og spreyta sig í hinum ýmsu þrautaleikjum.

Slær í gegn

Sæljónið ber nafnið Spike og er stolt sjóhersins. Hann er einn þriggja sæljóna sem hafa fengið að spila tölvuleiki og var sá fyrsti til þess að ljúka þjálfuninni. Í þjálfuninni segja þjálfarar að sæljónin hoppi sjálf upp á bryggjuna og byrji að spila, oft án þess að vera umbunað fyrir það.

Tölvuleikjaspilunin felur í sér að leysa hin ýmsu verkefni sem koma fyrir á stórum tölvuskjá fyrir framan sæljónin. Til dæmis má nefna tölvuleik sem gengur út á að komast í gegnum völundarhús, en til þess nota sæljónin trýnið til þess að ýta á stóra takka sem færa punktinn sem þarf að komast í gegn.

Dýrin bráðgreind

Stjórnendur sjóhersins segja þetta verkefni, sem felur í sér að „auka virkni og geðheilsu dýranna“, ganga vel og segja þeir að sæljónin og höfrungarnir sem rannsökuð eru séu mæld reglulega.

„Það er eintóm gleði á bakkanum þegar Spike mætir að spila, hann notar trýnið til þess að ýta á takka og reyna komast í gegnum þrautirnar. Augu hans eru límd við skjáinn og þegar hann kemst í mark þá brjótast út fagnaðarlæti og stundum fær hann verðlaun fyrir vel unnin störf. Svo fer hann annaðhvort í næsta borð eða aftur út í sjó. Hann hefur verið að æfa í um þrjú ár og hefur sýnt merki um betri heilsu og vellíðan.“

Um 300 manns starfa við þjálfun sæljóna og höfrunga í bandaríska sjóhernum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert