Ein og hálf milljón horfði á úrslitaleikinn

Accor-höllin í París.
Accor-höllin í París. Skjáskot/ParisTO

Á sunnudag fór fram úrslitaleikurinn á stórmótinu í Counter-Strike þar sem franska liðið Vitality bar sigur úr býtum og fagnaði fyrsta titlinum sínum á stórmóti. Oft er mikið meira áhorf á úrslitaleiki en leiki í úrslitakeppninni en svo var ekki þennan sunnudaginn.

Leikið í Frakklandi

Leikið var fyrir framan fulla höll í Accor-höllinni í París en þar mættust Vitality og GamerLegion, en það síðarnefnda fór á ótrúlegan hátt í gegnum úrslitakeppnina og tók út stór lið eins og Heroic og Fnatic sem báðum var spáð að ná langt í ár. 

Yfir ein og hálf milljón manns horfðu á úrslitaleikinn sem er langt frá áhorfendametinu í Counter-Strike en það var slegið árið 2021 í Svíþjóð þegar yfir 2,7 milljónir horfðu á úrslitaleikinn. Þess má þó geta að inni í þessum tölum frá Frakklandi er ekki talið hversu margir horfðu í gegnum heimasíðu mótshaldarans BLAST sem streymdi einnig frá mótinu þar. 

Mörg smærri lið náðu langt á mótinu á kostnað þeirra sem var spáð góðu gengi sem þýddi að margir horfðu á sín uppáhaldslið detta snemma út en til dæmis má nefna liðið Natus Vincere sem datt út í umspilskeppninni gegn FaZe Clan en sá leikur var æsispennandi og yfir milljón manns sem kveiktu á streyminu þegar leikurinn stóð yfir.

Í fyrsta sinn í sögu Counter-Strike: Global Offensive var enginn rússneskur rafíþróttamaður í úrslitakeppninni sem og fá lið frá Brasilíu sem tóku þátt sem hefur mikil áhrif á áhorf þar sem margir búa í Rússlandi og Suður-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert