Fyrrverandi leikmenn blómstra í nýju liði

Þrír fyrrverandi liðsmenn Astralis, Magisk, dupreeh og zonic.
Þrír fyrrverandi liðsmenn Astralis, Magisk, dupreeh og zonic. Samsett mynd

Nú er nýafstaðið síðasta stórmótið í tölvuleiknum Counter-Strike: Global Offensive en Counter-Strike færir sig yfir í nýjan leik innan tíðar, Counter-Strike 2. Margir horfa nú til baka og velta fyrir sér hvað stóð upp úr á þessum árum Global Offensive og reyna að spá um framhaldið. 

Eitt lið er ofarlega á lista margra yfir besta lið Counter-Strike en það er liðið Astralis sem um tíma vann alla titla sem í boði voru en nokkru síðar fór liðinu að hraka og hefur ekki tekist að kveikja sama neista og var áður.

Mismunandi hlutverk

Þrír fyrrverandi meðlimir liðsins leituðu á nýjar slóðir þegar illa gekk og eru nú orðnir stórmeistarar á ný með nýja liðinu sínu. Það eru þeir Magisk, dupreeh og þjálfari liðsins zonic.

Dupreeh var góður liðsmaður Astralis sem nánast alltaf var hægt að treysta á og var hans helsta hlutverk innan liðsins að bíða átekta og koma andstæðingum á óvart. Þegar hann fór frá Astralis yfir til Vitality breyttist hlutverk hans þó alveg og sér hann nú um að vera fremstur í víglínu og reyna að brjóta niður varnir andstæðinganna.

Dupreeh hefur fengið þátttökurétt á síðustu 19 stórmót með liðum sínum. 

Magisk sýndi enn og aftur hvers vegna hann er fjórfaldur stórmeistari á síðasta stórmóti en hann var frábær á mótinu. Hugarfar hans og yfirvegun sigldi titlinum í hús með hjálp zonic sem er einn besti þjálfari heims en hann hefur unnið flesta stórmeistaratitla af öllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert