Birti mynd af tölvuleiknum sem hann skammaðist sín fyrir

Framherji Manchester City, Erling Haaland.
Framherji Manchester City, Erling Haaland. AFP

Einn besti fótboltamaður heims um þessar mundir er án efa framherji Manchester City, norski landsliðsmaðurinn Erling Haaland. Markakóngurinn vildi ekki svara spurningum blaðamanns sem spurði hann hvaða tölvuleik hann væri að spila fyrr í mánuðinum.

Markakóngur

Haaland gekk til liðs við Manchester City síðasta sumar og náði því afreki á fyrsta tímabili sínu með félaginu að skora flest mörk á einu tímabili í Ensku úrvalsdeildinni. Manchester City er nýkrýndur Englandsmeistari og liðið keppir til úrslita í Meistaradeild Evrópu. Haaland hefur nú þegar skorað 52 mörk í öllum keppnum í ár.

Í viðtali eftir leik gegn West Ham fyrr í mánuðinum var hann spurður hvort hann hugsaði mikið um að slá markametið en hann sagðist þá einungis spila tölvuleiki, borða og sofa þegar hann kæmi heim eftir leiki og því lítill tími til þess að hugsa um metin.

Þá tók forvitnin völdin og var Haaland spurður hvaða tölvuleiki hann væri að spila en Haaland varð skömmustulegur á svip og neitaði að svara spurningunni. 

Netverjar veltu því fyrir sér allan mánuðinn hver leikurinn væri. Margir veltu fyrir sér hvort hann væri að tala um FIFA en fleiri hölluðust að öðrum leikjum á borð við World of Warcraft eða League of Legends. Haaland svaraði svo loks og kom í ljós að umræddur leikur er goðsagnakenndi leikurinn Minecraft.

Dæmið gengur upp, Minecraft er leikur þar sem spilari ræður alfarið hvaða leið hann tekur með heim sinn, hægt er að nota leikinn til þess að ná hugarró og ná sér niður eftir erfiða og stressandi daga sem virðist vera það sem Haaland gerir í góðum hópi spilara.

mbl.is