Líkir rafíþróttum við Formúlu 1

JAEGARN er fyrrverandi rafíþróttamaður og sinnir nú þjálfun á rafíþróttamönnum.
JAEGARN er fyrrverandi rafíþróttamaður og sinnir nú þjálfun á rafíþróttamönnum. Skjáskot/NIP

Eitt stærsta nafn í rafíþróttaheiminum og aðstoðarþjálfari stórliðsins Ninjas in Pyjamas, Fredrik „JAEGARN“, hefur verið viðloðinn rafíþróttasenuna í áratugi og hefur barist hart fyrir því að rafíþróttir fái að vera undir sama hatti og aðrar íþróttir.

Hann hefur lengi talað um heilbrigt líferni og hefur undanfarin átta ár unnið að því að reyna að koma fótum undir rafíþróttasenuna í Svíþjóð og talar um mikilvægi þess að hreyfa sig, sofa vel og næra sig í sambandi við rafíþróttaiðkun.

Fredrik segir í viðtali við mbl.is að margir séu efins um hvort hægt sé að túlka rafíþróttir sem íþrótt.

„Oft ber ég saman rafíþróttir við Formúlu 1. Í rafíþróttum þarf góða athygli og snögg viðbrögð líkt og í formúlunni, en einnig þarf að passa næringu og sinna þjálfun utan greinarinnar,“ segir hann.

„Það þarf að sinna líkamlegu hliðinni vel, góð líkamsstaða, svefn, athygli og næring þarf að vera í góðu lagi.“

Skjáskot/Instagram

Mikilvægt að iðkendur rafíþrótta fái sömu tækifæri

„Við höfum alltaf talið rafíþróttir sem venjulega íþrótt, það að iðkendur okkar fái sömu tækifæri í sinni íþrótt og í hefðbundnum íþróttum er gríðarlega mikilvægt. Það er mikilvægt að geta kennt iðkendum að sinna íþróttinni á góðan hátt.“

Um helgina samþykkti Svíþjóð að taka rafíþróttir inn undir sama hatt og íþróttir. Spurður um framtíð rafíþrótta og iðkendanna segir Fredrik:

„Rafíþróttaiðkendur læra gríðarlega vel á tölvur, samskipti, ákvarðanatöku og tungumál. Þetta er góð leið til þess að byggja upp einstaklingana á tímum mikilla framfara í tölvuheimum.“

mbl.is