Tveir leikir fóru fram í íslensku úrvalsdeildinni í Counter-Strike í kvöld. Önnur umferð byrjaði með viðureign SAGA Esports og ÍA og lokatölur 16:11 fyrir SAGA.
Leikurinn var nokkuð jafn en í fyrri hálfleik gerðu leikmenn Sögu vel og náðu 9 lotum gegn 6 lotum ÍA. ÍA-menn náðu þó að jafna metin í stöðunni 10:10 og fór leikmaður ÍA, Jón Kristján, mikinn í leiknum.
En hinum megin var það leikmaðurinn „ADHD“ sem fór á kostum og var lykilmaður í sigrinum í dag. SAGA með sinn fyrsta sigur í deildinni í ár.
Í seinni viðureigninni mættust ÍBV og NOCCO Dusty en það sá aldrei til sólar hjá Eyjamönnum í kvöld þar sem lokatölur voru 16:2 fyrir Dusty.
ÍBV komst aldrei á skrið gegn þessu stórliði Dusty. Dusty með fullkomna byrjun á tímabilinu en þeir stefna á að vinna allt sem hægt er að vinna samkvæmt fyrirliða Dusty. Dusty er í fyrsta sæti deildarinnar eftir leikinn í dag með 19+ fellur.
Á fimmtudaginn heldur önnur umferðin áfram þegar fara fram þrír leikir.
19.30: TEN5ION gegn Þór
20.30: Ármann gegn Breiðablik
21:30 FH gegn Atlantic.