Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford leikur með félaginu Manchester United auk þess að vera lykilmaður í enska landsliðinu.
Hann kom fram á blaðamannafundi fyrir síðasta leik félagsins þar sem hann fékk að sjá einkunnina sína í tölvuleiknum EA FC24 sem kemur á markað á föstudaginn fyrir þá sem forpöntuðu leikinn.
Marcus Rashford átti frábært tímabil með rauðu djöflunum á síðasta tímabili þar sem hann skoraði 30 mörk í öllum keppnum og fékk því væna uppfærslu í tölvuleiknum frá því í fyrra en honum fannst illa vegið að sér.
Spjald Rashford í EA FC fer úr því að vera með 83 í einkunn upp í 85 en honum fannst eins og það hefði verið gert lítið úr hlaupahraða því hann heldur að hann sé hraðasti leikmaður Manchester United. Þegar komið var að því að skoða varnareinkunn hans var hann virkilega óánægður, hann fékk 41 í einkunn af 99 mögulegum stigum.
„Er ég virkilega svona lélegur í vörn? Ég er í áfalli, ég er ekki að grínast. Hvernig gæti ég mögulega fengið lægri stig, er það einu sinni hægt?“ sagði Rashford á blaðamannafundinum.
Eins og áður kom fram þá kemur leikurinn út þann 29. september en þeir sem forpöntuðu leikinn geta hafið spilun núna á föstudag, 22. september.