3.000 manns lagt leið sína í Laugardalshöllina

Guðni forseti setti hátíðina.
Guðni forseti setti hátíðina. Ljósmynd/CCP

Guðni Th. Jó­hann­es­son for­seti Íslands setti í gær form­lega „EVE Fan­fest“, aðdá­enda­hátíð tölvu­leiks­ins EVE On­line, í Laug­ar­dals­höll fyr­ir full­um sal af aðdá­end­um og hönnuðum leiks­ins.

Í dag er lokadagur hátíðarinnar og hafa hátt í 3.000 manns lagt leið sína í Laugardalshöllina. Fyrir um það bil 1.000 gesti er ekki um langt ferðalag að ræða þar sem þeir eru Íslendingar en drjúgur meirihluti gesta, eða tæplega 2.000 talsins, kemur að utan.

„Dagurinn er búinn að vera ótrúlega góður og við hjá CCP erum í skýjunum yfir þeim viðtökum sem við höfum fengið fyrir því sem við erum að kynna gestum,“ segir Eldar Ástþórsson, vörumerkjastjóri CCP, í samtali við mbl.is.

Hátt í 2.000 manns mættu á hátíðina að utan.
Hátt í 2.000 manns mættu á hátíðina að utan. Ljósmynd/CCP

Hátíðin hefur tekist mjög vel

CCP hefur á hátíðinni kynnt nýjungar í leiknum en einnig í vöruþróun. Eldar segir góð viðbrögð vera við þessum nýjungum frá spilendum leiksins og sömuleiðis frá starfsmönnum í tölvu- og tæknigeiranum.

„Við erum bara rosalega ánægð með daginn í dag og hátíðina í heild. Maður getur með fullvissu sagt að þessi hátíð hafi tekist mjög vel.“

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag þá eru gangarnir sneisafullir af sölubásum þar sem gestir geta keypt sér föt, farið í klippingu, fengið sér húðflúr og fleira. Eldar segir að sölubásarnir hafi fallið mjög vel í kramið hjá gestum.

Meðal þess sem hægt er að gera á hátíðinni er …
Meðal þess sem hægt er að gera á hátíðinni er að fá sér húðflúr. Ljósmynd/CCP

Daði Freyr stígur á stokk

„Þetta endar í kvöld með mikilli skemmtun sem við köllum: Party at the Top of the World,“ segir og Eldar og þylur upp dagskránna, sem er ekki í síðri kantinum.

Tónlistamaðurinn Daði Freyr Pétursson stígur á stokk ásamt hljómsveit sinni, plötusnúður þeytir skífum og hljómsveit „á vegum hússins“ mætir einnig.

Gestir kappkostuðu við að mæta í flottustu búningunum úr tölvuleiknum.
Gestir kappkostuðu við að mæta í flottustu búningunum úr tölvuleiknum. Ljósmynd/CCP
mbl.is