Þórarinn Þórarinsson
Um helgina mættust Dusty og Tröll-Loop annars vegar og Þór og Selir hins vegar í tíundu og síðustu umferð fyrir undanúrslit Tölvulistadeildarinnar í Overwatch.
Þótt Þórsarar séu enn taplausir á tímabilinu var töluverð spenna í kringum leik þeirra og Selanna enda sterkustu liðin í deildinni í gegnum tíðina þannig að í beinu lýsingunni á leiknum þótti, í sögulegu ljósi, tilvalið að líkja honum við El Clásico.
Skemmst er síðan frá því að segja að úrslit beggja viðureigna hefðu ekki getað orðið meira afgerandi en Þórsarar sigruðu Selina 3:0 og lokatölurnar voru þær sömu hjá Dusty og Tröll-Loop, 3:0.
Þórsarar hafa því farið ósigraðir í gegnum hefðbundið leiktímabil og mæta því óneitanlega með sterka stöðu í undanúrslitin þar sem þeir fara gegn Tröllum-Loop og Dusty og Selir mætast.