Risastökk Brimis til MOUZ

Ólafur Hrafn segir Akureyringurinn unga, Brimi Birgisson, Blicks, hafa tekið …
Ólafur Hrafn segir Akureyringurinn unga, Brimi Birgisson, Blicks, hafa tekið risastökk inn í alþjóðlega rafíþróttaheiminn með samningi við ungmennalið MOUZ. Ljósmynd/Samsett

„Þetta er bara almennt rosa stórt stökk og að vera kominn þetta ungur á þennan stað segir enn meira um hversu gífurlegt afrek þetta er,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson, stofnandi Rafíþróttasambands Íslands, um samninginn sem Brimir Birgisson, tæplega sextán ára Akureyringur, hefur gert við þýska rafíþróttaliðið MOUZ.

Morgunblaðið sagði um helgina frá því að Brimir, sem notar leikjanafnið Blick í Counter Strike, væri kominn á tveggja ára samning hjá ungmennaliði þýska rafíþróttaliðsins MOUZ, eða Mousesports.

„Þetta er risa­stökkpall­ur inn í rafíþrótta­heim­inn,“ hafði Morgunblaðið eftir rafíþróttamanninum unga og faðir hans, Birgir Karl Birgisson, talaði um að þetta væri svo stórt tækifæri að það hefði ekki verið hægt að sleppa því.

Eins og í B-liði úrvalsdeildarinnar

Ólafur Hrafn, sem á sínum tíma stofnaði Rafíþróttasamband Íslands og síðar einnig Esports Coaching Academy, tekur undir þetta og segir samning Brimis svo sannarlega vera risastórt skref fyrir hann sjálfan en einnig geta orðið lyftistöng fyrir rafíþróttir á Íslandi.

„Þetta er alveg virkilega flott lið og alveg rótgróið Counter Strike-lið sem hefur átt mjög góðu gengi að fagna,“ segir Ólafur Hrafn um MOUZ. „Og það er ekki eins og þetta sé lið sem lifi á einhverri fornri frægð eða gömlum afrekum og hefur, ef mér skjátlast ekki, verið á mikilli siglingu undanfarið.“

Brimir Birgisson ásamt foreldrum sínum, Elinborgu Freysdóttur og Birgi Karli …
Brimir Birgisson ásamt foreldrum sínum, Elinborgu Freysdóttur og Birgi Karli Birgissyni, í höfuðstöðvum Mousesports í Hamborg í síðustu viku. Ljósmynd/Mousesports

Ólafur Hrafn grípur síðan til líkingar við hefðbundnari íþrótt til þess að setja þetta í samhengi. „Og þá myndi ég alveg segja að þetta er svona eins og þú myndir fá samning í B liði hjá topp tíu liði í Premiere Legue.“

Ólafur Hrafn bendir í framhaldinu á að með samningnum sé Brimir í raun kominn í frekar þröngan hóp. „Aðallega vegna þess að þessi ungmennalið eru ekki það algeng en í rafíþróttum eru þau í raun nýtt til þess að búa bara markvisst til spilara sem liðin stefna annað hvort á að setja inn í aðalliðið hjá sér þegar þeir eru tilbúnir. Eða jafnvel selja þá áfram til annarra atvinnuliða eftir að það er búið að þróa þá upp á það stig.“

Með allt í hendi sér

Ólafur Hrafn segir að framtíðin sé því björt hjá Brimi þegar hann er kominn þetta ungur jafn langt inn í „þennan tiltölulega litla heim“ sem rafíþróttirnar eru. 

„Núna hefur hann þetta allt í höndum sér. Ef hann heldur áfram að leggja hart að sér, kemur vel fyrir, sýnir sig og sannar sem góðan liðsmann og tekur góðan þátt í innra starfinu þá á hann bara framtíðina fyrir sér og er kominn í ansi fámennan hóp sem telur kannski tvö til þrjú hundruð spilara á heimsvísu, sem lifa og hrærast í þessum heimi.“

Ólafur Hrafn efast heldur ekki um að árangur Brimis verði ekki aðeins öðrum ungum spilurum hvatning til frekari dáða, heldur varpi þetta einnig jákvæðu ljósi á rafíþróttirnar almennt.

Ólafur Hrafn Steinarsson, stofnandi Rafíþróttasambands Íslands, RÍSÍ, og Esports Coaching …
Ólafur Hrafn Steinarsson, stofnandi Rafíþróttasambands Íslands, RÍSÍ, og Esports Coaching Academy, ECA. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Mér finnst mjög gaman hvernig þetta sýnir að þetta er mögulegt á Íslandi og þótt þú sért að keppa í herberginu þínu heima á Íslandi þá bjóða rafíþróttirnar upp á að þú takir þátt í mótum og keppir á móti erlendum spilurum. Blick er þannig búinn að spila á móti erlendum spilurum á netinu í ansi langan tíma og í ofanálag er hann búinn að vera að keppa reglulega hérna á Íslandi síðustu ár.“

Ólafur Hrafn minnir á að, rétt eins og í öllum öðrum íþróttum, er það ennþá aðeins brotabrot af þeim sem leggja rafíþróttir fyrir sig sem ná þessum árangri og stökki inn í atvinnumennskuna.

„En þetta þýðir að þetta er hægt frá Íslandi ef þú leggur mikið á þig og einblínir á það að verða góður. Ekki bara tölvuleikjaspilari heldur rafíþróttamaður. Ég hef til dæmis bara heyrt það útundan mér að frá því að Blick byrjaði að spila í efstu deildinni hérna heima hafi komið mörgum spilurum á óvart og þeim þótt mikið til þess koma hversu góður hann var að vinna í liði,“ segir Ólafur Hrafn.

Uppskorið eins og til var sáð

„Og ég held líka að þetta sé eitthvað sem segir mikið til um það sem barna- og yngri flokka starfið á Íslandi er byrjað að framkalla. Það eru að koma fram ungir leikmenn sem koma kannski bara út í þetta umhverfi töluvert mótaðari spilarar heldur en ef þeir hefðu bara farið í gegnum þetta einir heima í herberginu sínu,“ heldur Ólafur Hrafn áfram.

„Ég vil líta á þetta þannig að við séum núna að byrja að sjá afraksturinn af þeirri vegferð sem við lögðum upp í fyrir sex árum með stofnun RÍSÍ til þess að skapa umhverfi á Íslandi þar sem við gætum ræktað hæfileikafólk í rafíþróttum á heilbrigðan og jákvæðan hátt.

Núna erum við að fá fram algjörlega frábær hæfileikabúnt eins og Blick og Atla í Dota,“ segir Ólafur Hrafn um þá Brimi og Atla Snæ Sigurðsson, „undrabarnið“ í Dota2 sem er þrefaldur Íslandsmeistari í Dota2, aðeins fimmtán ára gamall.

Einstakt umhverfi á Íslandi

„Þeir eru dæmi um unga spilara sem alast upp í menningu þar sem það er ekki neikvætt að leggja sig fram í áhugamálinu tölvuleikir eða það talað niður að setja sér markmið og ætla sér að ná langt í rafíþróttum.

Og ég býst bara við því að á næstu árum séum við að fara að sjá fleiri fleiri dæmi um þetta koma frá Íslandi. Vegna þess að hér eigum við yngri flokka umhverfi og þjálfunar umhverfi sem eru einstök á heimsvísu.“

Ólafur Hrafn var tekinn inn í Esports Hall of Fame …
Ólafur Hrafn var tekinn inn í Esports Hall of Fame fyrir framlag hans til valdeflingar næstu kynslóðar afreksfólks í rafíþróttum. Ljósmynd/Skjáskot

Ólafur Hrafn segist sjálfur hafa orðið áþreifanlega var við að sá árangur sem hefur náðst í eflingu rafíþróttastarfs á Íslandi á skömmum tíma sé þegar byrjaður að vekja athygli erlendis. Í þessu sambandi rifjar hann upp ferð sína til Portúgal í haust þegar Esports Insider vígði hann inn í frægðarhöll rafíþróttanna, Esports Hall of Fame.

„Það var áhugavert að þar var ég að tala við starfsfólk annars atvinnumannaliðs og þegar þau fréttu af því að íslenskir spilarar væru til dæmis gengnir til liðs við lið eins og MOUZ þá vildu þau strax fræðast meira um íslenska umhverfið og sjá hvort hérna gæti verið fleira hæfileikafólk sem þau gætu jafnvel fengið til sín.“ 

Ólafur Hrafn segist þannig ekki efast um að samningur Brimis við MOUZ eigi einnig eftir að beina sjónum rafíþróttaheimsins enn frekar að Íslandi í þessu sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka