Hefur mölvað Þórsara áður

Þorsteinn og félagar í Dusty bundu enda á keppnistímabilið hjá …
Þorsteinn og félagar í Dusty bundu enda á keppnistímabilið hjá Veca og auðheyrt á honum að hann er vel til í að mölva Þórsara í úrslitunum á laugardaginn.

Síðari undanúrslitum Ljósleiðaradeildarinnar lauk í gær með 2:0-sigri Dusty á Veca og því er ljóst að það verða Þór og Dusty sem berjast um Íslandsmeistaratitilinn í Counter Strike fyrir fullum sal í Arena á laugardaginn.

Barátta Dusty og Veca um að komast í úrslitaleikinn hófst í Mirage og lauk með 13:10-sigri Dusty.

Seinni leikurinn fór fram í Inferno og þar var Þorsteinn Friðfinnsson (THOR) í miklu stuði, Dusty gaf engin grið og sigraði sannfærandi 13:2.

Óskaleikur áhorfenda

Venju samkvæmt lýstu Tóm­as Jó­hanns­son og Ein­ar Ragn­ars­son viðureigninni í beinni út­send­ingu og Tómas kvað upp þann dóm eftir síðari leikinn að þar hefði verið boðið upp á „masterclass í hvernig á að spila Inferno“.

Einar Ragnarsson og Tómas Jóhannsson eru heldur betur gíraðir fyrir …
Einar Ragnarsson og Tómas Jóhannsson eru heldur betur gíraðir fyrir úrslitaleikinn sem þeir munu að sjálfsögðu lýsa í beinni á laugardaginn.

Þegar ljóst var að Þórsarar myndu mæta Dusty í úrslitunum á laugardaginn tókst Tómasi að fá einarðan Veca-manninn, Einar, til þess að viðurkenna að Þór á móti Dusty væri úrslitaleikurinn sem áhorfendur hafi almennt vonast til að fá að sjá.

Hefur mölvað þá áður

Tómas studdi mál sitt með ábendingu um að Þór og Dusty eigi stærstu áhangendahópa landsins og að í liðinum séu „á blaði allavegana, margir af bestu leikmönnunum á Íslandi“. Þannig að það verði gríðarlega öflugur mannskapur sem tekst á „í „best of five“ seríu í einhverri veislu á laugardaginn“.

Einar og Tómas tóku örstutt spjall við Dusty-kempuna Þorsteinn Friðfinnsson undir lok útsendingarinnar og augljóst er að hann mætir grimmum Þórsurum ósmeykur.

Þegar Tómas spurði hvort hann væri spenntur fyrir því að fá loksins að mæta Þórsurum í úrslitaleik á stóru sviði í fyrsta skipti var svarið einfalt og beinskeytt:

„Ég mölvaði þá á HRingnum.“

Svo fá voru þau orð en Tómas staðfesti að Dusty hefði vissulega „slátrað“ Þór á lanmótinu HRingurinn sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka