„Við mættum bara reddí og þetta var ekki mikið stress og við vorum bara tilbúnir,“ sagði Þorsteinn Friðfinnsson, einn lykilmanna Dusty, eftir að liðið varð Íslandsmeistari í Counter Strike með 3:1 sigri á Þór í úrslitaviðureign Ljósleiðaradeildarinnar í kvöld.
Þrátt fyrir nokkuð afgerandi lokatölurnar var úrslitakeppnin æsispennandi og mikil stemning og tilfinningahiti í áhorfendum sem troðfylltu Arena á Smáratorgi þar sem liðin mættust.
Þór komst í úrslit með sigri á liði Ármanns á þriðjudaginn en Dusty stimplaði sig síðan sannfærandi inn með því að leggja Veca í seinni undanúrslitaleiknum á fimmtudaginn.
Bæði liðin ætluðu sér ekkert annað en sigur í kvöld en Þorsteinn var sjálfsöryggið uppmálað í viðtali í beinni útsendingu eftir undanúrslitaleikinn á fimmtudaginn þegar hann gerði ekki mikið með að mæta Þór loksins í úrslitaleik á stóru sviði og sagðist hafa „mölvað“ Þórsara áður.
„Þetta var bara rétt sem ég sagði. Maður hefur mölvað þessa gæja oft áður og bara heldur því áfram,“ sagði Þorsteinn vígreifur og sigursæll, nýstaðinn upp frá stafrænum vígvellinum.