Þórarinn Þórarinsson
Úrslitabarátta Dusty og Þórs um Íslandsmeistaratitilinn í Counter Strike í Ljósleiðaradeildinni hófst í Arena klukkan 18 en meðal annars er hægt er að fylgjast með viðureigninni í beinu streymi í spilaranum á rafíþróttavef Mbl.is hér fyrir ofan.
Spennan í Ljósleiðaradeildinni nær hámarki í kvöld þegar úrvalsdeildarliðin tvö berjast þar til aðeins annað þeirra stendur uppi sem sigurvegari og Íslandsmeistari í hinum margrómaða og sívinsæla leik Counter Strike.
Líf og fjör hefur verið í Arena í allan dag þar sem stuðningsfólk liðanna og annað áhugafólk um rafíþróttir og þá sérstaklega Counter Strike hefur hitað upp fyrir stóru stundina.
Tómas Jóhannsson og Einar Ragnarsson, sem hafa lýst leikjum Ljósleiðaradeildarinnar undanfarið í beinni, eru að sjálfsögðu mættir á sína vakt og hafa, að gefnu tilefni, fengið liðsauka í Árna Bent Þráinssyni (leFluff) sem byrjaði tímabilið sem fyrirliði Dusty áður en hann dró sig í hlé um miðbik tímabilsins.
Sýnt verður frá keppninni í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans og í streymi, meðal annars, á rásum Rafíþróttasambands Íslands á Twitch, Facebook og YouTube og svo hér á rafíþróttavef Mbl.is.