„Við eigum engan rétt á að vera svekktir,“ segir Þórsarinn Ásmundur Viggósson um tapið gegn Dusty í úrslitaleik Ljósleiðaradeildarinnar á laugardagskvöld.
Þegar Ásmundur, sem er líklega enn þekktari undir leikjanafni sínu Pandaz, er spurður hvað hafi klikkað í úrslitunum segir hann að lengi megi velta fyrir sér hvað klikkaði og hvað ekki. Dagsformið hafi alltaf mikið að segja.
Eftir níu umferðir og fyrir úrslitakeppnina var Þór í fyrsta sæti deildarinnar, með Dusty á hælunum í öðru sæti. Titillinn endaði síðan hjá Dusty eftir 3:1 sigur í úrslitaviðureigninni á laugardaginn.
„Maður uppsker eins og maður sáir og væntingar okkar voru engar,“ segir Ásmundur og bætir við að liðið hafi ekkert lagt í úrslitaleikinn nema kannski bara það helst að mæta til leiks. „Þannig að við eigum engan rétt á að vera svekktir.“
Ásmundur áréttar einnig að ýmislegt hafi gengið á í leikjum úrslitakvöldsins og stundum hafi staðið tæpt þannig að lokatölurnar 3:1 segi ekki alla söguna.
Þá telur hann Þórsara hafa átt meiri stuðning áhorfenda og vissulega mátti skynja mikinn meðbyr með þeim hjá áhorfendum í Arena. „Ég heyrði allaveganna ekki mikið fagnað þegar okkur var að ganga illa,“ segir Ásmundur „Pandaz“ hvergi af baki dottinn.
„Við vorum furðurólegir. Við mættum bara reddí og þetta var ekki mikið stress og við vorum bara tilbúnir. Bara búnir að venjast þessu,“ sagði Dusty-liðinn Þorsteinn Friðfinnsson eftir sigurinn á laugardaginn.
Þorsteinn, sem spilar sem THOR í Counter Strike, bætti við að Dusty væri búið að gnæfa yfir Íslandi síðustu fimm ár. „Og þá sérstaklega ég, Eddi og Stebbi sem höfum verið í öllum liðunum í þessi fimm ár.
Þannig að við erum bara orðnir vanir og kunnum að díla við þessa pressu,“ sagði hann um félaga sína Stefán Inga Guðjónsson (StebbiC0C0) og Eðvarð Þór Heimisson (EddezeNNN).
Þorsteinn spilaði þó ekki með Dusty í upphafi mótsins en kom aftur inn í liðið á síðari stigum. „Ég er að fara út á háskólastyrk í gegnum Counter Strike til Boston í Bandaríkjunum. Þannig að ég ákvað að hætta til að klára menntaskólann,“ segir Þorsteinn.
„Þannig að nú er ég bara á fullu í skólanum en síðan splundraðist gamla Dusty liðið og þá var ég beðinn um að koma inn og stýra skipinu í rétta átt. Og það tókst.“