Denas sigrar í Fortni­te milli sundæfinga

Denas Kazu­lis er sextán ára sundkappi sem hefur sýnt eftirtektarverð …
Denas Kazu­lis er sextán ára sundkappi sem hefur sýnt eftirtektarverð tilþrif í ELKO-Deildinni í Fortnite á keppnistímabilinu. Ljósmynd/Aðsend

Spilararnir ungu, Denas Kazu­lis, sextán ára, og Kristófer Tristan, fimmtán ára, stungu aðra keppendur fljótlega af í ELKO-Deildinni í Fortnite og háðu í raun ein­vígi á toppnum meira eða minna allt keppn­is­tíma­bilið.

„Ég held bara að við séum báðir mjög góðir í leik og þetta var svakaleg keppni og örugglega mikið stress hjá okkur báðum,“ segir Denas (den­as 13) um hörkuspennandi og ótrúlega jafna baráttu hans og Kristó­fers (iKristoo).

Denas segir að eftir því sem á leið hafi metnaðurinn bara orðið meiri og hann hafi ekki ætlað sér neitt annað en sigur. Þar sem þeir skiptust nokkuð jafnt á að vinna leiki þurfti þó allar tíu vikurnar og tuttugu leiki áður en Denas náði takmarkinu og sigraði deildina með 428 stigum á móti 415 stig­um Kristó­fers.

„Ég veit alveg hver hann er og við höfum oft talað saman í gegnum leikinn,“ segir hann um höfuðandstæðinginn. „Ég þekki flesta þarna.“ Aðspurður bætir hann við að þótt keppnin hafi verið hörð séu, þannig lagað, enginn illindi milli manna þótt hann hafi alls ekkert alltaf verið sáttur við spilastíl Kristófers.

Ekki á WASD tökkunum

Denas byrjaði að spila Fortnite fyrir sex árum en leikurinn er bæði fyrsti og eini tölvuleikurinn sem hann spilar. „Ég spilaði aldrei tölvuleiki og átti ekki einu sinni tölvu eða neitt þegar ég spilaði Fortnite í fyrsta sinn eftir að vinur minn sagði mér að prófa þennan leik,“ segir Denas um sín fyrstu kynni af Fortnite 2018.

„Ég byrjaði að spila á örvatökkunum á lyklaborðinu vegna þess að ég kunni ekki neitt á svona leiki og spila ekki á WASD tökkunum. Þetta er svolítið skrítið og ég held ég sé einn af fáum sem spila svona,“ segir Denas þegar hann útskýrir sjaldgæfan stjórnunarstíl sinn á lyklaborðinu í Fortnite.

Denas segist hafa fært sig af örvatökkunum þegar hann eignaðist betra lyklaborð en hefur haldið sig nálægt örvunum, hægra megin á lyklaborðinu.

Denas sýnir hér þá sérstöku og frekar sjaldgæfu fingrasetningu sem …
Denas sýnir hér þá sérstöku og frekar sjaldgæfu fingrasetningu sem hann notar þegar hann spilar Fortnite. Ljósmynd/Aðsend

„Það var erfiðara að nota örvarnar á nýja lyklaborðinu og þá byrjaði ég að nota takka hægra megin á lyklaborðinu. Næstum því við hliðina á örvatökkunum.“ 

Alltaf í djúpu lauginni

Miðað við árangur Denasar í ELKO-Deildinni mætti ætla að hann spilaði Fortnite öllum stundum en sú er þó alls ekki raunin.

„Ég spila leikinn næstum bara um helgar vegna þess að ég æfi svo mikið af öðrum íþróttum,“ segir Denas sem hefur hlaupið maraþon tvisvar og æfir sund af mikilli einurð og festu með Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar. 

„Sundið er við hliðina á RAFÍK (Rafíþróttadeild Keflavíkur) sem er mjög hentugt,“ segir Denas sem átti að vera á sundæfingum þegar spilað var í ELKO-Deildinni á mánudagskvöldum. Þjálfarinn hans hafi þá leyft honum að klára æfinguna fyrr svo hann gæti keppt í leiknum.

„Ég er á endalausum sundæfingum, sérstaklega fyrir stórmót. Þá er ég að synda mikið og hef lítinn tíma til að spila. Ég gat samt spilað leikinn svolítið meira fyrir seinustu vikuna í deildinni. Vegna þess að þá urðu sundæfingarnar léttari af því það var mjög stutt í mót og þá þarf maður að hvíla sig dálítið mikið.“

Þannig vildi svo heppilega til að á meðan Denas var að hvíla fyrir sundmót gat hann hert róðurinn í Fortnite og æft sig aðeins meira fyrir lokaumferð tímabilsins í ELKO-Deildinni.

Sundið hjálpar

„Já, ég held að sundið hafi hjálpað mér,“ segir Denas þegar hann er spurður hvort hann haldi að sundið og gott líkamlegt ástand geri hann að öflugri rafíþróttamanni. „Bara eins og viðbragðstíminn minn í sundi  hjálpar að vera öflugri og betri held ég að hann hafi hjálpað mér mjög mikið í Fortnite. Sérstaklega þar sem maður þarf að vera snöggur að bregðast við öllu sem gerist í leiknum.“

Ólíkt því sem ætla mætti spilar Denas Fortnite ekki öllum …
Ólíkt því sem ætla mætti spilar Denas Fortnite ekki öllum stundum enda oftast í sundi. Ljósmynd/Aðsend

Þótt Denas hafi þegar tryggt sér bikarinn og 125.000 króna verðlaun fyrir efsta sæti ELKO-Deildarinnar er hann ekki kominn upp úr djúpu lauginni vegna þess að nokkrum dögum fyrir úrslitakvöld ELKO-Deildarinnar verður hann að keppa á Norðurlandameistaramóti í sundi í Vejle í Danmörku.

„Ég held að þetta sleppi þannig að ég komist á lokakvöldið,“ segir Denas sem syndir á Norðurlandamótinu fyrstu þrjá dagana í desember en ætlar sér að vera mættur til leiks á hápunkt Fortnite-tímabilsins  í Arena í Kópavogi laugardaginn 7. desember.

Hann segist ákveðinn í því að halda áfram á sigurbrautinni þegar á hólminn er komið í Arena enda enn hægt að bæta við sig verðlaunum því á úrslitakvöldinu verða veitt sérstök peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sæt­in; 60.000, 25.000 og 15.000.

Þótt Denas hafi tryggt sér sigurinn í ELKO-Deildinni má segja …
Þótt Denas hafi tryggt sér sigurinn í ELKO-Deildinni má segja að hápunktur tímabilsins sé enn eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka