Kom, sá og vissi ekki að hann sigraði

Viktor Vignisson kíkti á stemninguna á úrslitakvöldi Ljósleiðaradeilarinnar, felldi 100 …
Viktor Vignisson kíkti á stemninguna á úrslitakvöldi Ljósleiðaradeilarinnar, felldi 100 á 39 sekúndum og hvarf grunlaus af velli án þess að hafa hugmynd um að hafa unnið til verðlauna. Ljósmynd/Aðsend

Sigurvegarinn í keppninni um skjótustu Red Bull skyttuna, sem fór fram á úrslitakvöldi Ljósleiðaradeildarinnar, gerði sér lítið fyrir og náði 100 fellum á rétt rúmum 39 sekúndum en hvarf síðan af vettvangi fullkomlega ómeðvitaður um að hann hafði unnið bæði titil og verðlaun.

„Ég var þarna með félögum mínum en við ákváðum bara að hittast þarna í góðri stemningu og skoða aðeins hvað væri í boði,“ sagði Red Bull Aim hetjan Viktor Vignisson eftir að hann kom í leitirnar og vitjaði verðlaunanna á miðvikudaginn.

Keppninn gekk út á að ná sem flestum fellum á einni mínútu en Viktor gerði sér lítið fyrir og kláraði óvinakvótann með því að salla 100 slíka niður á 39 sekúndum. Eitthvað sem verður að teljast býsna vel af sér vikið þar sem 60 sekúndur voru gefnar til verksins.

Þannig að þú hefur alveg tekið þessa mínútu með stæl?

„Já,“ svarar skyttan snögga, hógværðin uppmáluð, en neitar því ekki að hann geti talist nokkuð hittinn. „En þetta var líka kannski smá heppni,“  bætir Viktor við og hlær.

Árangur Viktors var til bókar færður í þessu skjáskoti sem …
Árangur Viktors var til bókar færður í þessu skjáskoti sem segir allt sem segja þarf.

„Keppnin milli Þórs og Dusty var í gangi þegar við ákváðum að kíkja í þetta en ég var ekkert sérstaklega að fylgjast með leiknum og kom bara fyrir stemninguna sjálfa,“ heldur Viktor áfram og segir vinahópinn oft spila hina ýmsu leiki saman og Counter Strike er að sjálfsögðu þar á meðal.

„Við tókum allir hring á þessu og einn félagi minn náði fjórða sæti held ég.“ Sjálfur steig Viktor svo slakur inn á vígvöllinn að hann hafði ekki hugmynd um að með afreki sínu hefði hann unnið sér inn kassa af hinum nýja Red Bull Iced Cotton Candy, Red Bull Baby Cooler kæliskáp fyrir góssið og tíu tíma í Arena.

„Þetta kom skemmtilega á óvart,“ sagði Viktor um símtalið sem hann fékk eftir helgina þegar öll kurl voru komin til grafar. „Þetta er mjög fyndið og gaman að þessu,“ segir Viktor Vignisson, Red Bull skyttan sem týndist, fannst og vitjaði að lokum titilsins og verðlaunanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka