Seinni undanúrslitaleik Míludeildarinnar í Valorant kvenna lauk með 2:1 sigri Jötunn Valkyrja á Venus og því ljóst að Valkyrjurnar og Klutz munu eigast við í úrslitunum í desember.
Baráttan milli Venusar og Valkyrjanna var tvísýn og nokkuð jöfn og þrjá leiki þurfti til þess að fá fram úrslit. Lokaleikurinn fór 13:10 fyrir Valkyrjunum sem halda því áfram og mæta Klutz í úrslitum föstudaginn 6. desember.
Ekki er von á öðru en að um hörku viðureign verði að ræða þar sem Valkyrjurnar eru til alls líklegar og geta gert Klutz, sem er besta lið deildarinnar á pappírnum, lífið leitt.
Barátta Venusar og GoldDiggers ætti ekki síður að verða spennandi þannig að það verður allt í járnum í Míludeildinni í Valorant fyrsta föstudag desembermánaðar.