Ein­vígi við Widowma­ker á úr­slita­kvöldi Overwatch

Daníel Sigurðsson býður gestum sem vilja geta kallað sig Hörkutól …
Daníel Sigurðsson býður gestum sem vilja geta kallað sig Hörkutól Tölvulistans að mæta hetjunni hættulegu Widowmaker.

Rafíþróttasamband Íslands lýkur nóvembermánuði með sannkallaðri úrslitahelgi. Baráttan um Tölvulistabikarinn í Overwatch verður til lykta leidd í kvöld og á morgun kemur síðan í ljós hverjir verða meistarar GR-Verk deildarinnar í Rocket League.

Gert er ráð fyrir stanslausu fjöri fram eftir kvöldi í Arena þegar lið Þórs og Dusty keppa til úrslita í Tölvulistabikarnum í Overwatch.

Gestir geta síðan stytt sér stundir á meðan þeir bíða eftir úrslitunum með því að mæta hetjunni Widowmaker, með fyrrverandi fyrirliða landsliðsins í Overwatch, Daníel Sigurvinsson, að baki sér í einvígi kenndu við Hörkutól Tölvulistans.

Gleði fram eftir kvöldi

Engin hætta er á öðru en hart verði barist á öllum vígstöðvum þar sem Dusty hef­ur titil að verja sem fyrrverandi meistarar Þórs fá, aftur á móti, nú tækifæri til að endurheimta.

Ekki dregur síðan úr spennunni að Þór mætir til leiks ósigraður, eftir tíu umferðir, með 30 stig í 1. sæti deildarinnar á móti 25 stigum Dusty í 2. sætinu.

Rétt eins og á úrslitakvöldi Ljósleiðardeildarinnar í Counter Strike, fyrir hálfum mánuði, verður heilmikil veislustemning í Arena enda gefa úrslitakvöldin fólkinu í  leikjasamfélögunum kjörið tækifæri til að lyfta sér á kreik, hittast og skemmta sér á meðan beðið er eftir úrslitum.

Markús Pálmason verður veislustjóri kvöldsins og sjálfsagt verður bæði stuð og á brattann að sækja hjá þeim sem þora á móti Daníel og skæðu hetjunni Widowmaker með.  

Góður í gamla daga

„Widowmaker er leyniskyttan í Overwatch og hentar þannig vel í svona einn á móti einum, ekki ósvipuðu því sem var í boði með Red Bull skyttuna, á Counter Strike úrslitakvöldinu,“ segir Daníel og bætir við að hann hafi verið fenginn til verksins þar sem hann hafi verið góður á Widowmaker í „gamla daga.“

Takist þeim sem sem treysta sér til þess að ganga á hólm við Widowmaker og Daníel að fella hetjurnar hljóta þau verðlaun frá Tölvulistanum og geta skreytt sig með nafnbótinni Hörkutól Tölvulistans.

Var bestur í heimi

Daníel og Widowmaker verða mögulega sýnd veiði í kvöld en varla gefin því að í „gamla daga“, eins og Daníel orðar það, var hann til dæmis landsliðsfyrirliði Íslands í Overwatch 2017 og um það bil tveimur árum síðar var hann á tímabili talinn sá besti í heimi á Widowmaker.

„Síðan þá er þetta allt búið að vera á niðurleið hjá mér,“ segir Daníel brosandi og bætir við að hann vonist þó til að enn sé ástæða til þess að óttast hann á Widowmaker og að fólk telji sig ekki bara geta komið og krækt í ókeypis verðlaun fyrirhafnalaust.

Úrslitaveisla Tölvulistabikarsins og uppskeruhátíð Overwatch-samfélagsins hefst í Arena klukkan 17 í dag. Bein útsending í Sjónvarpi Símans og beint streymi frá viðburðinum byrjar klukkustund síðar, klukkan 18 á rás­um Rafíþrótta­sam­bands Íslands á Twitch, Face­book og YouTu­be.

Markús Pálmason heldur utan um gleðina á uppskeruhátíð Overwatch-samfélagsins sem …
Markús Pálmason heldur utan um gleðina á uppskeruhátíð Overwatch-samfélagsins sem hefst í Arena klukkan 17 í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka