Börn bíða í röðum eftir rafíþróttaæfingum

„Fjöldi iðkenda hef­ur auk­ist veru­lega hjá mér, bæði í Fylki …
„Fjöldi iðkenda hef­ur auk­ist veru­lega hjá mér, bæði í Fylki og FH, frá því að ég tók við sem yfirþjálf­ari fyr­ir ári síðan,“ seg­ir Pat­rek­ur Gunnlaugsson.

Aðsóknin á rafíþróttaæfingar barna og unglinga er slík að biðlistar hafa til dæmis myndast hjá Fylki. Aðalþjálfari liðsins hvetur fólk til að skrá börn sín þar sem stefnt er að því að bregðast við með fjölgun hópa.

Skráning á vorönn í rafíþróttir fyrir börn er í fullum gangi hjá Fylki og FH og áhuginn er slíkur að í Fortnite-hópinn og blandað 11-13 ára eru aðeins örfá pláss laus hjá Fylki. 

Pat­rek­ur Gunn­laugs­son, yfirþjálf­ari í rafíþrótt­um, hjá báðum liðunum segir þessa miklu aðsókn ekki koma sér á óvart en hins vegar sé ótrúlega ánægjulegt að sjá þessa miklu aukningu í aðsókninni.

Æfingarnar hjá Fylki hefjast 21. janúar og í einhverjum tilfellum hafa biðlistar þegar myndast og Patrekur hvetur fólk eindregið til að skrá börn sín þar sem brugðist verði við mestu aðsókninni með því að bæta við hópum og þá hafi þau sem eru skráð forgang.

„Fjöldi iðkenda hefur aukist verulega hjá mér, bæði í Fylki og FH, frá því að ég tók við sem yfirþjálfari fyrir ári síðan,“ segir Patrekur og minnir á að samkvæmt nýlegri könnun Gallup spila 99% grunnskóladrengja og 73% grunnskólastelpna tölvuleiki.

„Það er því augljóst að rafíþróttir eiga mikinn hljómgrunn meðal ungs fólks og því lykilatriði að byggja upp rafíþróttastarfsemi á Íslandi á fagmannlegan og vel skipulagðan hátt.“

Patrekur með ungum rafíþróttaköppum á verðlaunapalli: FH-ingunum Þorláki Gottskálk Guðfinnssyni …
Patrekur með ungum rafíþróttaköppum á verðlaunapalli: FH-ingunum Þorláki Gottskálk Guðfinnssyni og Brimi Leó Bjarnasyni annars vegar og hins vegar Alexander Orra Eiríkssyni og Benedikt Nóel Benediktssyni úr Fylki.

Gaman að sjá stelpunum fjölga

Patrekur segist aðspurður telja að þessi fjölgun krakka í skipulögðu rafíþróttastarfi muni halda áfram enda sýni aðsóknin nú fram á að áhuginn er klárlega að aukast. „Ég er sérstaklega ánægður með að sjá hversu margir stelpur hafa áhuga á rafíþróttum. Til dæmis var ég með hóp í Fylki þar sem kynjahlutfallið var 50/50, sem er alveg frábært. 

Þetta er mikilvæg þróun, og það er gaman að sjá stelpur líta upp til keppenda eins og þeirra sem taka þátt í Míludeildinni í Valorant. Ég tel að þessi vöxtur muni halda áfram, sérstaklega ef við leggjum áherslu á að efla innviði, halda fleiri mót og bjóða upp á fræðslu fyrir bæði iðkendur og foreldra.“

Patrekur, sem er með BSc-gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík og lærði þjálfun í ECA (Esports Coaching Academy), segist hafa séð börn og unglinga blómstra í rafíþróttum. 

„Sum þeirra finna sig ekki í hefðbundnum íþróttum eða öðrum félagsstörfum, en rafíþróttir hafa gefið þeim vettvang til að þroskast og styrkjast, bæði andlega og félagslega.

Margir þeirra sem æfa hjá mér sýna ótrúlega framfarir í leiknum sem þeir æfa og öðlast aukið sjálfstraust og færni sem nýtist þeim víðar í lífinu.“

Nýyrðið „rafíþróttameiðsli“

Patrekur leggur mikla áherslu á mikilvægi líkamlegrar heilsu í rafíþróttum. „Staðan í dag er sú að þeir bestu í heiminum eru í toppformi, bæði líkamlega og andlega. Þetta er breyting frá því sem áður var, þegar þeir sem eyddu mestum tíma fyrir framan skjáinn höfðu forskot.“

Þegar kemur að þessum þætti þjálfunarinnar segist Patrekur meðal annars byggja á eigin reynslu af bakmeiðslum sem hann rekur til langvarandi setu. 

„Ég hef sjálfur þurft að glíma við bakvandamál vegna langvarandi setu og kenni iðkendum hvernig þeir geta komið í veg fyrir svipuð vandamál. Þetta er nýyrði sem ég kalla „rafíþróttameiðsli“, og ég legg áherslu á forvarnir í mínum þjálfunum.

Aðsóknin á rafíþróttaæfingar Fylkis er slík að biðlistar hafa myndast …
Aðsóknin á rafíþróttaæfingar Fylkis er slík að biðlistar hafa myndast í ákveðna flokka.

Ég hef lagt mikla áherslu á mikilvægi svefns, hreyfingar og næringar í þjálfun minni, enda er þetta lykilatriði fyrir þá sem vilja ná langt í rafíþróttum. Svefn hefur sérstaklega mikil áhrif á frammistöðu í leikjum sem krefjast viðbragðstíma og einbeitingar.“

Áhrifaríkur æfingaleikur

Patrekur segir leikinn Aimlabs einfaldan en áhrifaríkan æfingaleik til þess að þjálfa spilarana í að miða. „Ég hef notað leikinn í þjálfuninni en hann virkar þannig að þrjár kúlur birtast á skjánum og þegar þú hittir eina hverfur hún og birtist annars staðar.

Þú hefur 60 sekúndur til að ná eins mörgum stigum og þú getur og misheppnuð skot gefa mínusstig. Þessi leikur er ekki aðeins skemmtilegur heldur sýnir krökkunum hversu miklum framförum þau geta náð með markvissri æfingu.“

Patrekur segir leikinn vekja gríðarlegan áhuga margra sem vilji stöðugt bæta sig. Sjálfur noti hann Aimlabs sem hluta af upphitun og þá sérstaklega þegar hann var að keppa í Counter-Strike.

FH-ingar hafa átt góðu gengi að fagna á Ungmennamótum RÍSÍ.
FH-ingar hafa átt góðu gengi að fagna á Ungmennamótum RÍSÍ.

„Leikurinn hjálpaði mér að skerpa á viðbrögðum og ákvarðanatöku og ég varð mun betri keppandi með honum. Ég sýni iðkendum oft hvernig ég spila Aimlabs og þau verða yfirleitt mjög áhugasöm um að bæta sig og sum jafnvel ákveðin í að slá metið mitt!“

Vísindaleg nálgun

Patrekur segist einnig hafa tekið vísindalega nálgun á þjálfunina með því að skoða hvernig svefn hefur áhrif á frammistöðu. „Ég gerði einfalda en áhrifaríka tilraun á sjálfum mér. Fyrst svaf ég aðeins fimm klukkustundir, æfði í Aimlabs í 30 mínútur og mældi meðalskorið mitt. 

Daginn eftir svaf ég níu klukkustundir og tók sömu æfingu með sömu mælingu. Niðurstöðurnar voru skýrar. Svefn hafði afgerandi áhrif á bæði viðbragðstíma minn og meðalskor,“ segir Patrekur sem byggir á þessari reynslu við þjálfunina.

„Ég legg mikla áherslu á að þau skilji að til að ná árangri, hvort sem það er á æfingum eða í mótum hjá Rafíþróttasambandi Íslands, þurfi þau að gæta vel að svefni, hreyfingu og næringu. Það er lykillinn að því að standa sig vel, bæði í rafíþróttum og í lífinu almennt.“

Björt framtíð

Þegar talið berst að framtíð rafíþrótta á Íslandi segir Patrekur hana vera bjarta. „Við getum skapað frábæra rafíþróttamenn sem geta keppt á hæsta stigi og jafnvel unnið til verðlauna á viðburðum eins og Ólympíuleikum rafíþrótta,“ segir hann og leggur áherslu á að til þess þurfi að halda áfram að þróa starfið, auka fræðslu og fá rafíþróttir viðurkenndar sem fullgilda íþrótt.

„Ég hef líka lagt mikla vinnu í að útbúa handbók fyrir foreldra, þar sem ég fer yfir hvernig þau geta stutt börn sín í rafíþróttum og skilið betur það umhverfi sem börnin eru í. Þetta skiptir máli því mörg börn eyða miklum tíma í leikjaheiminum, og foreldrar þurfa að sýna áhuga og styðja þau í því sem þau gera. Með stuðningi geta börnin blómstrað, bæði í leiknum og í lífinu almennt.“

Vorönnin hjá Patreki hefst í byrjun næstu viku og hann bendir á að enn sé hægt að skrá börnin á Abler, bæði hjá Fylki og FH. „Ef hóparnir eru fullir þá hvet ég fólk til þess að skrá börnin á biðlista því ég er nú með tvo aðstoðarþjálfara sem munu sjá um aukahópa til að mæta aukinni aðsókn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert