GAIMIN er alþjóðlegt tæknifyrirtæki með höfuðstöðvar í Lissabon í Portúgal. Þar mætast rafíþróttir, dreifðar skýjalausnir og leikjamenning í einu vistkerfi sem spannar allt frá rafíþróttaliðum til hugbúnaðar fyrir leikjaspilara.
Undir merki GAIMIN starfar hið sigursæla rafíþróttalið Gaimin Gladiators sem hafnaði í öðru sæti á The International í Dota 2 í fyrra og hefur byggt upp sterka stöðu á heimsvísu. eSports.is ræddi við Nökkva Dan Elliðason, forstjóra GAIMIN, sem segir velgengnina hafa umbreytt bæði vörumerkinu og framtíðarsýn fyrirtækisins.
„Velgengni GaiminGladiators (GG) á alþjóðavettvangi hefur haft veruleg jákvæð áhrif á samsteypuna,“ segir Nökkvi í samtali við esports.is.
„Upphaflega var þetta framtak ætlað til að styrkja vörumerkið okkar, en með mikilli vinnu og smá heppni hefur okkur tekist að þróa GG í arðbært fyrirtæki innan samsteypunnar. Þessi frammistaða eykur traust meðal fjárfesta, samstarfsaðila og leikjasamfélagsins og styrkir alla þætti viðskiptamódelsins, allt frá samfélagsuppbyggingu til nýrra tækifæra í vörum og þjónustu.“
Hér má sjá samantektarmyndband af GaiminGladiators frá Esports World Cup 2025 í Riyadh, þar sem liðið sýndi styrk sinn á meðal fremstu rafíþróttaliða heims.
„Undir merkjum okkar höfum við rekið 10–15 lið á ári hverju, meðal annars í Dota 2, Apex Legends, EAFC (FIFA) og slagsmálaleikjum á borð við Tekken og Street Fighter,“ útskýrir Nökkvi. „Ákvörðunin í upphafi var að miklu leyti drifin áfram af þekkingu stjórnendateymisins sem fyrrverandi atvinnumenn í þessum greinum.
Á síðasta ári breyttum við þó viðskiptamódelinu og leggjum nú meiri áherslu á þá þætti sem við getum sjálf stjórnað, til dæmis markaðssetningu styrktaraðila og sýnileika leikmanna á samfélagsmiðlum.“
Nökkvi segir rafíþróttir sífellt vera í endurnýjun.
„Rafíþróttaiðnaðurinn einkennist af hraða þar sem stöðug breyting er regla frekar en undantekning. Vörumerkið okkar nær til yfir 30 milljarða áhorfa á ári og liðin okkar keppa í öllum heimsálfum,“ segir hann.
„Árið 2026 stefnum við að því að styrkja stöðu okkar í Suður-Ameríku með því að hasla okkur völl í Counter-Strike og byggja upp öflugt samstarfsnet í kringum þann leik. Þaðan munum við halda áfram að vera á tánum og nýta hvert tækifæri til að treysta stöðu okkar enn frekar.“
GaiminGladiators hafa tekið í notkun nýja æfingaaðstöðu í Lissabon að verðmæti rúmlega 120 milljónir króna (um eina milljón dollara). Hér má sjá fyrsta innlit í þetta glæsilega gaming-setur sem markar nýja kafla í sögu liðsins.
Eitt af stærri verkefnum GAIMIN Gladiators er samstarfið við Esports World Cup Foundation.
„EWCF er afar spennandi nýtt afl í rafíþróttum og hluti af 2030 áætlun Sádi-Arabíu sem miðar að því að efla afþreyingariðnaðinn,“ segir Nökkvi.
„Árlega kallar hún saman úrvalshóp fremstu rafíþróttafélaga til keppni í Riyadh. Við erum heppin að tilheyra þessum sérvalda hópi sem veitir okkur bæði aukinn sýnileika og styrkari stöðu á alþjóðavettvangi.“
Framtíð rafíþrótta lítur björt út að mati Nökkva.
„Þróunin hefur tekið gífurlegum framförum, sérstaklega í kjölfar Covid og aukinnar aðkomu alþjóðlegra samtaka eins og EWCF,“ segir hann. „Ég tel líklegt að heimsleikarnir muni halda áfram að vaxa og jafnvel færast til fleiri landa. Þá má búast við aukinni áherslu á landsliðskeppnir, þátttöku í Ólympíuleikum og fjölgun sérleyfisdeilda.“
GAIMIN hefur einnig komið að gerð heimildarþátta fyrir Amazon í samstarfi við Sony. Þættirnir bera heitið Esports World Cup: Level Up og fylgja stærsta rafíþróttamóti sem haldið hefur verið, þar sem 1.500 keppendur mættu til leiks í 22 titlum og keppt var um 60 milljónir dollara í verðlaunafé.
Í þáttunum má fylgjast með bæði nýjum stjörnum og reynslumiklum keppendum takast á í Riyadh, í þeirri baráttu að tryggja sér fyrsta heimsmeistaratitilinn í ClubChampionship. Eins og fram kemur í kynningu þáttanna: „Það að eitthvað hafi ekki sögu… þýðir ekki að það geti ekki orðið sögulegt.“
Hér má nálgast þættina í heild sinni.
Hugmyndin að GAIMIN kviknaði árið 2018 þegar skortur á reiknigetu fór að verða sýnilegur.
„SatyaNadella, forstjóri Microsoft, sagði á sínum tíma að heimurinn væri að verða uppiskroppa með reiknigetu, og sú spá hefur ræst með tilkomu gervigreindarinnar,“ segir Nökkvi. „Við ákváðum að horfa ekki fyrst og fremst til fleiri gagnavera heldur hvernig mætti nýta betur þá reiknigetu sem þegar er til staðar. Hugmyndafræðin er sú sama og hjá Airbnb eða Uber: að virkja ónotaða auðlind, í þessu tilviki afkastagetu tölva. Með GAIMIN fá einstaklingar tækifæri til að leggja sitt af mörkum og fyrirtæki fá lausn á skorti sínum.“
GAIMIN valdi Portúgal sem höfuðstöðvar af nokkrum ástæðum.
„Við erum með starfsmenn og viðskiptavini í flestum heimsálfum og því skiptir miklu máli að hafa aðgengi að alþjóðaflugvelli,“ segir hann. „Að auki er hér fjölbreyttur hópur sérfræðinga í tæknigeiranum, launakostnaður hagstæður og lífsgæði ásamt sólríku loftslagi gera okkur auðvelt að laða til okkar hæfileikaríkt fólk.“
Sem hraðvaxandi tæknifyrirtæki hefur GAIMIN þurft að leysa margar áskoranir.
„Á tæknisviðinu snýst það um að tryggja stöðugleika og skilvirkni dreifðra skýjalausna á heimsvísu. Á mannlega sviðinu snýst það um að byggja sterkt teymi, samræma alþjóðlega starfsemi og tryggja að allir starfsmenn séu samstilltir markmiðum okkar,“ segir Nökkvi.
Til að styrkja stöðugleika kerfisins hefur GAIMIN jafnvel nýtt verkfræðikenningar úr kjarnorkuvísindum.
„Við vinnum með doktorsnemum frá IvyLeague-skólum að því að yfirfæra þessar kenningar á netkerfi okkar. Þetta snýst um jafnvægi milli nýsköpunar og gæðastjórnunar,“ segir hann.
Hann viðurkennir að persónulegar áskoranir fylgi.
„Ég er undir meðalaldri margra viðsemjenda og með um 20 ára minni reynslu. Ég mæti því með ró og styðst við ráðgjafa og leiðsögn þegar þarf. Það gerir mér kleift að taka vel ígrundaðar ákvarðanir og halda einbeitingu á langtímamarkmiðunum.“
Framtíðarmarkmiðin eru metnaðarfull.
„GAIMIN er í eðli sínu tunglskotsfyrirtæki sem þarf að taka stórar áhættuákvarðanir til að geta keppt við risana,“ segir Nökkvi. „Við stefnum á að verða einhyrningsfyrirtæki innan fimm ára með virðismat upp á einn milljarð bandaríkjadala.
Mikilvægasti tíminn eru næstu 18 mánuðir þar sem við erum að ljúka lykilsamningum og treysta stöðu okkar á alþjóðavettvangi.“
GAIMIN Launcher er hjartað í vistkerfinu.
„Hugbúnaðurinn þjónar tvíþættum tilgangi: annars vegar sameinar hann leikjasamfélagið með miðlægu viðmóti þar sem hægt er að tengja saman alla helstu leiki. Hins vegar gefur hann notendum tækifæri til að nýta ónotaða afkastagetu tölvunnar í verkefni sem krefjast mikillar reiknigetu,“ útskýrir Nökkvi.
Umbunin felst í rafmynt sem hægt er að nota í vistkerfinu eða selja fyrir hefðbundinn gjaldeyri.
„Þetta hefur reynst sérstaklega gagnlegt fyrir foreldra sem vilja styðja við áhugamál barna sinna án þess að kostnaður fari úr böndunum. Í stað kreditkortsins geta leikjaspilarar fjármagnað sitt áhugamál með þátttöku í lausn GAIMIN.“
Í september 2025 kom ný útgáfa Launcherins út eftir fjögurra mánaða endurskilgreiningu undir verkefninu GAIMIN 2.0.
„Við lögðum áherslu á að hann væri tilbúinn fyrir fjöldanotkun. Nýi Launcherinn er aðeins rétt að byrja í núverandi mynd en mun þróast hratt með fjölbreyttari notkun, auknu skemmtanagildi og sterkari tengingu við rafíþróttir,“ segir hann. „Við stefnum á milljónasta niðurhalið fyrir jól 2025 og erum þegar komin yfir 600 þúsund.“
„Við erum ekki að reyna að verða næsti Steam, Riot eða EpicGames,“ segir Nökkvi. „Við viljum skapa sameiginlegt kjarnaviðmót sem styður við leikjaspilara óháð vettvangi. Notendur geta tengt aðganga sína hjá Steam og EpicGames og spilað í gegnum okkar forrit. Stærri kaka þýðir fleiri sneiðar fyrir alla og GAIMIN Launcher er brúin sem gerir það mögulegt.“
Nökkvi segir að GAIMIN vinni að fjölmörgum samstarfsverkefnum, en mörg þeirra séu bundin trúnaði. Hann leggur þó áherslu á að félagið styðji einnig minni aðila.
„Ég er alltaf opinn fyrir því að heyra frá íslenskum fyrirtækjum og frumkvöðlum sem vilja nýta vistkerfið okkar. Nýlega fékk ég skilaboð frá ungum fatahönnuði og við erum þegar farin að ræða hugmyndir um hvernig við getum hjálpað honum að koma sér á framfæri,“ segir hann. „Þetta er kjarninn í GAIMIN – að tengja saman risana og grasrótina þannig að báðir geti vaxið og dafnað.“
Að lokum spurðum við Nökkva hvort hann spili sjálfur tölvuleiki og hvort leikjaspilun hafi haft áhrif á störf hans sem forstjóra GAIMIN.
Hann segir að hann hafi hingað til ekki varið miklum tíma í tölvuleiki sem afþreyingu, þó hann grípi stundum í þá til að halda tengslum við vini víðs vegar um heiminn, einkum í Fortnite og League of Legends. Sú „rafíþrótt“ sem hann hafi þó lagt hvað mestan tíma í sé skák, sem hann æfði og keppti í sem barn.
„Meðal vina minna ríkir nokkur samhljómur um að ég sé langt undir meðaltali í tölvuleikjafærni,“ segir Nökkvi og bætir við að reynsla hans úr skák hafi þó mótað hann sterkt.
„Líkt og aðrar íþróttir kenna rafíþróttir manni aga, einbeitingu og stefnumótandi hugsun, eiginleika sem ég dreg með mér inn í daglegt starf og ákvarðanatöku sem forstjóri GAIMIN.“
Hann rifjar jafnframt upp orð vinar síns, Tryggva Hjaltasonar:
„Tölvuleikir eru í raun hermun af daglegu lífi: þú ert stöðugt að takast á við einhverjar áskoranir og reyna að verða betri útgáfa af sjálfum þér innan ákveðins ramma, og með því nærðu næsta „level“. Sú hugmynd hefur alltaf fylgt mér í starfi.“
Að lokum undirstrikar Nökkvi að þessi sýn sé lykilatriði í starfi GAIMIN.
„Við berum mikla virðingu fyrir tölvuleikjamenningunni og nálgumst hana með þetta viðhorf að leiðarljósi, með metnað, áhuga og skilning, til að mæta notendum okkar þar sem þeir eru og byggja lausnir sem styðja raunverulega við upplifun.“