Davíð Örn tryggði sér fyrsta sigurinn á Watkins Glen

Ljósmynd/Magnús Jón Árnason

Það var sannkölluð hátíð fyrir kappakstursáhugafólk þegar önnur umferð 1. deildar Íslenska Gran Turismo Samfélagsins (GTSI) á vetrartímabilinu fór fram á hinni goðsagnakenndu Watkins Glen braut í Gran Turismo. Keppnin bauð upp á bæði taktíska baráttu og dramatískar uppákomur, þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu metrunum.

Davíð Örn Adamsson hóf keppnina úr ráspól eftir góða tímatöku og nýtti sér forskotið til fulls. Hann hélt haus, stýrði hraðanum af nákvæmni og tryggði sér að lokum sinn fyrsta sigur í 1. deildinni.

Á vef esports.is kemur fram að Jón Þór Ásgrímsson átti erfitt með að finna taktinn í tímatökunni og þurfti því að byrja aftar en hann ætlaði sér. Það breytti þó litlu, því hann sýndi líklega mestan hraða allra á brautinni. Jón Þór ruddi sér leið í toppbaráttuna, tók þátt í ófáum átökum og tryggði sér annað sætið eftir glæsilegan framúrakstur á Óliver Nóa í hinni frægu Busstop beygju, atriði sem áhorfendur fá aldrei leið á að horfa á aftur í útsendingunni (sjá hér að neðan).

Óliver Nói Auðunsson reyndist svo sannarlega nýr „varnarmálaráðherra“ GTSI samfélagsins þegar kom að lokakaflanum. Hann lokaði öllum glufum sem hægt var, hélt af sér stöðugri pressu, en varð að lokum að láta Jón Þór framhjá. Þriðja sætið var engu að síður stórsigur fyrir hann sjálfan, enda um fyrsta pall hans í 1. deild að ræða.

Hilmar Már Gunnarsson endaði í fjórða sæti en stóð þó upp úr með hraðasta hring kvöldsins á Medium-dekkjum. Hann var jafnframt kosinn DOTD (Driver of the Day) í spjallinu á YouTube-streyminu, sem undirstrikar hversu sterkt kvöldið var hjá honum. Í fimmta sæti skilaði sér svo Ari Lyngdal, þrátt fyrir að hafa orðið fyrir skemmdum eftir að hann, Jón Þór og Óliver tóku sig til og reyndu 3-wide inn í aðra beygju.

Stigakeppnin hitnar

Sigur Davíðs þýðir að forskot Jóns Þórs í stigakeppninni hefur nú minnkað niður í aðeins eitt stig. Þar fyrir aftan hefur Óliver Nói stokkið upp í þriðja sætið, ellefu stigum frá

toppnum, að hluta til þar sem Jón Ægir mætti ekki til leiks. Hilmar, Ari Lyngdal og Hilli D bættu allir stöðu sína og færðust þrjú sæti upp listann.

Í liðakeppninni tók Kaldi Racing Team yfir toppsætið og eru nú sex stigum á undan Be Sick Racing Team. Arc-Tic Retro Rewind Racing sitja enn í þriðja sæti, þó með nokkuð langt bil í toppbaráttuna.

Kærumál afgreitt

Eitt kærumál barst eftir keppnina þar sem Jón Þór lagði fram kvörtun á hendur Ara Lyngdal vegna átaka á nokkrum hringjum. Dómnefndin, skipuð Magga og Dodda, úrskurðaði að um hefðbundin kappakstursatvik væri að ræða. Engar refsingar voru veittar, en ökumönnum var áréttað að skilja eftir pláss og sýna hvert öðru gagnkvæma virðingu á brautinni.

Úrslitin á Watkins Glen:

1. sæti: Davíð Örn Adamsson
2. sæti: Jón Þór Ásgrímsson
3. sæti: Óliver Nói Auðunsson

Hraðasti hringur: Hilmar Már Gunnarsson

Ráspóll: Davíð Örn Adamsson Staðan hefur verið uppfærð á vefsíðu Gran Turismo Samfélagsins hér.

Ljósmynd/Gran Turismo Samfélagið
Ljósmynd/Gran Turismo Samfélagið

Horfðu á keppnina hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert