BMW gefur Villeneuve upp á bátinn

Villeneuve er leiður á samstarfsslitunum.
Villeneuve er leiður á samstarfsslitunum. reuters

Jacques Villeneuve keppir ekki meira fyrir BMW-liðið það sem eftir er vertíðar. Hann keppti ekki í Ungverjalandi í gær vegna verkja af völdum óhapps í Hockenheim viku fyrr. Robert Kubica sem hljóp í skarðið sló í gegn og stóð sig framar öllum vonum með því að verða sjöundi á mark.

Í tilkynningu frá BMW segir að samkomulag hafi náðst við Villeneuve um að slíta samstarfinu þegar í stað.

„Jacques hefur staðið sig vel fyrir okkur í ár og hann vann fyrstu stig liðsins í Malasíukappakstrinum,“ sagði liðsstjórinn Mario Theissen. „Hann hefur lagt mjög mikið af mörkum til þróunar hins nýja BMW-liðs og getu keppnisbílsins.

Burtséð frá því ákvað liðið eftir óhappið í Hockenheim að yfirfara valkosti sína varðandi næsta ár, þar á meðal að meta frammistöðu Robert Kubica í keppni. Sú niðurstaða hefur vitaskuld haft áhrif á stöðu Jacques það sem eftir er vertíðar.

Við höfum fullan skilning á því að það yrði erfitt fyrir Jacques að halda meðfæddri helgun í óvissuástandi. Við virðum afstöðu hans og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni,“ sagði Thiessen.

Kubica var á endanum dæmdur úr leik þar sem bíllinn hans reyndist tveimur kílóum undir lágmarksþyngd á endamarki. Var það rakið til óvænts og of mikils dekkjaslits.

Villeneuve svekktur og leiður

Villeneuve sagðist í dag svekktur yfir því að nú skildu leiðir hans og BMW. Hann sagðist og leiður yfir þeirri ákvörðun BMW að halda ekki í sig og segist nú einbeita sér að framtíðinni.

„Í síðustu viku tjáði liðið mér að það ætlaði að meta valkosti sína fyrir næsta ár, þar á meðal að prufa Robert Kubica í keppni í Ungverjalandi, og sagðist ekki geta veitt mér neina tryggingu fyrir keppnissæti eftir það,“ sagði Villeneuve.

„Þess vegna varð það að samkomulagi milli okkar að leiðir skildu þegar í stað. Þetta er mjög svekkjandi þar sem mér stóð hugur til að vinna með BMW til lengri tíma litið - fara inn í næsta keppnistímabil og njóta þá sameiginlegrar reynslu okkar,“ bætti hann við. „Nú hef ég meiri tíma til að einbeita mér að framtíðar verkefnum. Að lokum vil ég þakka liðinu, einkum vélfræðingum mínum og styrktaraðilum liðsins sem ég hef haft mikla ánægju af að starfa með undanfarið ár.“

Villeneuve á ferð á heimavelli í Montreal í ár.
Villeneuve á ferð á heimavelli í Montreal í ár. ap
Villeneuve ekur BMW-bílnum ei meir.
Villeneuve ekur BMW-bílnum ei meir. reuters
mbl.is