McLaren slapp með skrekkinn

Fernando Alonso og Lewis Hamilton fagna árangrinum í Mónakó.
Fernando Alonso og Lewis Hamilton fagna árangrinum í Mónakó. Reuters

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur komist að þeirri niðurstöðu, að McLaren keppnisliðið í Formúlu 1 kappakstrinum hafi ekki brotið reglur í kappakstrinum í Mónakó um síðustu helgi. FIA hóf á mánudag rannsókn á því hvort reglur hefðu verið brotnar þegar Lewis Hamilton, sem endaði í 2. sæti í kappakstrinum, var sagt að reyna ekki að aka fram úr Fernando Alonso, liðsfélaga sínum, sem sigraði.

Bernie Ecclestone, einn áhrifamesti leiðtogi formúlunnar, sagði í gær að McLaren ætti yfir höfði sér sekt eða stigafrádrátt ef niðurstaðan yrðu sú að ökumönnunum hefðu verið gefin sérstök fyrirmæli um það hvernig þeir ættu að skipta með sér verðlaunum.

Í yfirlýsingu frá FIA segir, að eftir að farið hafi verið yfir talstöðvarsamskipti liðsstjórnarinnar og ökuþóranna og önnur gögn sé ljóst, að McLarenliðið hafi ekki brotið gegn neinum reglum.

Hamilton viðurkenndi eftir kappaksturinn, að honum hefði verið sagt að „taka því rólega" þegar hann sótti að Alonso en liðsstjóri McLaren sagði að það hefði aðeins verið hluti af keppnisáætlun liðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert