Massa hlutskarpastur í æsispennandi tímatöku í Istanbúl

Hvort Massa sé að fara með bæn eður ei fyrir ...
Hvort Massa sé að fara með bæn eður ei fyrir tímatökurnar í Istanbúl þá hreppti hann ráspólinn á réttu augnabliki. ap
Felipe Massa á Ferrari var í þessu að vinna einkar spennandi tímatökur tyrkneska kappakstursins í Istanbúl. Skaust hann á síðustu metrunum fram úr Lewis Hamilton á McLaren sem nokkrum sekúndum áður vann sig úr fimmta sæti í það fyrsta.

Bílar Ferrari og McLaren verða hlið við hlið á fremstu tveimur rásröðum því Kimi Räikkönen á Ferrari varð þriðji og Fernando Alonso á McLaren fjórði. Räikkönen var fljótastur í fyrstu lotu og Alonso í þeirri næstu.

Lengi var sá fyrrnefndi í forystu í lokalotunni en Hamilton og síðar Massa komust fram úr í lokahring sínum, en í honum gerði Räikkönen akstursmistök sem kostuðu hann eflaust tíma.

Fyrir síðasta tímahring ökuþóranna í lokalotunni skildu aðeins 54 þúsundustu úr sekúndu þá Massa, Räikkönen og Alonso að en Hamilton var fjórum sekúndubrotum á eftir þeim.

Hann bætti sinn tíma hins vegar um sex brot í lokatilrauninni og sat í smástund í fyrsta sætinu, eða þar til Massa náði 44 þúsundusta úr sekúndu betri hring.

Alonso tók þá óvenjulegu ákvörðun að setja harðari dekkin undir fyrir lokatilraun sína en keppinautar hans voru þá allir með mýkri gerðina undir. Gat hann ekki jafnað eða bætt tíma sinn á mýkri dekkjunum og varð fjórði.

Robert Kubica varð fimmti og hafði betur í lokin gegn BMW-félaga sínum Nick Heidfeld. Heikki Kovalainen á Renault óx ásmegin eftir því sem á leið, vann reyndari liðsfélaga sinn, Giancarlo Fisichella, eina ferðina enn og varð sjöundi.

Nico Rosberg á Williams stóð sig einnig vel og varð áttundi, á undan Jarno Trulli á Toyota og Fisichella.

Keppni um að komast í lokaumferðina, þ.e. verða meðal 10 fyrstu í annarri lotu, var gríðarlega hörð. Sex til sjö ökuþórar bitust grimmt um sjöunda til tíunda sætið og skiptust ótt og títt á að verma þau.

Alveg undir lokin skaust Anthony Davidson á Super Aguri upp í níunda sætið og virtist ætla komast í lokalotuna en varð að sjá á eftir Rosberg og Trulli fram úr sér nokkrum sekúndum seinna. Tók Rosberg stökk úr 16. sæti í það áttunda í síðustu tímatilraun sinni.

Mest kom á óvart, að Ralf Schumacher á Toyota féll úr leik í fyrstu lotu. Hafði frammistaða á æfingum þótt benda til annars en að hann hæfi keppnina á morgun í aðeins 18. sæti.

Auk hans féllu úr leik í fyrstu lotu þeir Vitantonio Liuzzi á Toro Rosso, Takuma Sato á Super Aguri, Sebastian Vettel á Toro Rosso og Spykerþórarnir Adrian Sutil og Sakon Yamamoto.

Niðurstaða tímatökunnar í Istanbúl varð annars sem hér segir:

Tímatakan í Istanbúl Lota 1 Lota 2 Lota 3
Röð Ökuþór Lið Röð Tími Hri. Röð Tími Hri. Röð Tími Hri.
1. Massa Ferrari 3. 1:27.488 4 4. 1:27.039 3 1. 1:27.329 11
2. Hamilton McLaren 4. 1:27.513 3 3. 1:26.936 3 2. 1:27.373 11
3. Räikkönen Ferrari 1. 1:27.294 4 2. 1:26.902 3 3. 1:27.546 11
4. Alonso McLaren 2. 1:27.328 3 1. 1:26.841 3 4. 1:27.574 11
5. Kubica BMW 5. 1:27.997 3 5. 1:27.253 3 5. 1:27.722 11
6. Heidfeld BMW 6. 1:28.099 3 6. 1:27.253 3 6. 1:28.037 11
7. Kovalainen Renault 7. 1:28.127 7 8. 1:27.784 6 7. 1:28.491 11
8. Rosberg Williams 8. 1:28.275 3 7. 1:27.750 6 8. 1:28.501 11
9. Trulli Toyota 11. 1:28.318 7 9. 1:27.801 6 9. 1:28.740 11
10. Fisichella Renault 10. 1:28.313 7 10. 1:27.880 6 10. 1:29.322 11
11. Davidson Super Aguri 9. 1:28.304 6 11. 1:28.002 6      
12. Webber Red Bull 15. 1:28.500 6 12. 1:28.013 6      
13. Coulthard Red Bull 14. 1:28.395 6 13. 1:28.100 6      
14. Barrichello Honda 16. 1:28.792 6 14. 1:28.188 6      
15. Button Honda 13. 1:28.373 6 15. 1:28.220 6      
16. Wurz Williams 12. 1:28.360 6 16. 1:28.390 8      
17. Liuzzi Toro Rosso 17. 1:28.798 9            
18. R.Schumacher Toyota 18. 1:28.809 7            
19. Sato Super Aguri 19. 1:28.953 8            
20. Vettel Toro Rosso 20. 1:29.408 6            
21. Sutil Spyker 21. 1:29.861 9            
22. Yamamoto Spyker 22. 1:31.479 7            

Massa leggur af stað í Istanbúl.
Massa leggur af stað í Istanbúl. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina