Öruggt hjá Massa og Ferrari fagnar tvennu

Massa í góðri forystu í fyrstu beygju í Istanbúl og …
Massa í góðri forystu í fyrstu beygju í Istanbúl og Räikkönen kominn fram úr Hamilton. ap

Felipe Massa hjá Ferrari var í þessu að vinna öruggan sigur í tyrkneska kappakstrinum, annað árið í röð. Fyrir lið hans var dagurinn fullkominn því Kimi Räikkönen varð annar á mark. Þriðji varð Fernando Alonso á McLaren en liðsfélagi hans Lewis Hamilton féll úr þriðja sæti í það fimmta þegar skammt var eftir.

Massa hóf kappaksturinn af ráspól og lét forystuna aldrei af hendi. Räikkönen sótti mjög að honum skömmu fyrir seinna þjónustustopp en komst ekki fram úr.

Eftir stoppið gildir sú óskrifaða regla að liðsfélagar bítast ekki og því sigldi Massa brott frá Räikkönen. Sló Räikkönen af en sýndi hvers hann hefði ella verið megnugur með því að setja hraðasta hring keppninnar er tveir hringir voru eftir.

Stutt var á milli Ferraribílanna í tveimur fyrstu lotunum og sýndist Räikkönen jafnvel með meiri bílhraða. Tók hann bæði bensínstopp sín hring á undan Massa og réði það eflaust úrslitum um sigur Brasilíumannsins.

Hamilton var rétt á eftir Ferrariþórunum lengst af en varð fyrir óhappi er um 15 hringir voru eftir, sprakk hægra framdekk í miðjum hring og þar sem hann missti ferð á leið inn að bílskúr komust Alonso og Nick Heidfeld á BMW fram úr honum.

Fyrir vikið saxaði Alonso á forskot Hamiltons í stigakeppni ökuþóra og munar nú aðeins fimm stigum á þeim þegar fimm mót eru eftir. Ferrari hlaut 18 stig gegn 10 stigum McLaren í keppni bílsmiða og saxar því jafnt og þétt á foryst síðarnefnda liðsins.

Staðan í keppni bílsmiða er 148:137 fyrir McLaren en vinni liðið kærumál og endurheimti stigin 15 sem dæmd voru af því í Búdapest eftir nær það þægilegri forystu á ný.

Ökuþórar McLaren áttu slaka ræsingu. Räikkönen komst fram úr Hamilton á fyrstu metrunum og hélt öðru sæti alla leið. Athygli vakti að Alonso missti báða BMW-bílana fram úr sér, en þegar að stoppum kom reyndust báðir bensínléttari.

Vann hann sig fram úr þeim í fyrra þjónustustoppi og þótt hann æki eftir það á svipuðum hraða og Hamilton var hann um 14 sekúndum á eftir honum er hann komst fram úr BMW-mönnum og komst aldrei í tæri við fremstu menn.

Heikki Kovalainen hjá Renault stóð sig vel. Vann sig fram úr Kubica í fyrra þjónustustoppi og var með forystu í kappakstrinum um skeið þar sem hann ók lengra en allir fremstu menn í fyrstu lotu. Á síðustu hringjunum sótti hann mjög að Hamilton, sem var með laskaðan framvæng, en komst ekki nógu nærri til að reyna við hann og lauk keppni í sjötta sæti.

Með því komst Kovalainen upp fyrir liðsfélaga sinn Giancarlo Fisichella í stigakeppni ökuþóra og styrkir mjög stöðu sína hjá Renault.

Kubica galt þeirrar herfræði að stoppa snemma dýru verði. Féll hann aftur fyrir Alonso, Heidfeld og Kovalainen í fyrri þjónustustoppunum og missti Nico Rosberg hjá Williams fram úr sér í seinna stoppi.

Úrslitin í Istanbúl

Staðan í stigakeppni ökuþóra og bílsmiða eftir kappaksturinn í Istanbúl

Frá ræsingunni í Istanbúl.
Frá ræsingunni í Istanbúl. ap
Trulli varð fyrir því að snarsnúa Toyotunni í fyrstu beygju.
Trulli varð fyrir því að snarsnúa Toyotunni í fyrstu beygju. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina