Ecclestone barðist fyrir því að McLaren fengi að keppa

Bernie Ecclestone á förnum vegi að baki bílskúrum keppnisliðanna í …
Bernie Ecclestone á förnum vegi að baki bílskúrum keppnisliðanna í Spa. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Bernie Ecclestone, alráður formúlu-1, segist hafa barist fyrir því að McLarenliðið yrði einungis beitt fjársekt vegna njósnamálsins. Hann segir jafnframt, að litlu hafi mátt muna að liðið yrði dæmt úr leik í keppni bílsmiða í tvö ár.

"Það munaði engu að liðinu yrði vísað úr keppni, það var raunhæfur möguleiki," segir hann við breska útvarpið BBC. "Nokkrir okkar þraukuðum og börðust fyrir fjársekt í staðinn," bætir hann við.

McLaren var svipt stigum í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða og sektað um 100 milljónir dollara á fundi íþróttaráðs Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í París í fyrradag. Þar á Ecclestone sæti ásamt 25 einstaklingum öðrum, en formaður ráðsins og jafnframt forseti FIA er Max Mosley.

Ecclestone segir að útskúfun frá keppni hafi verið "miklu nærri en allir segja" og viðurkennir að slíkt hefði orðið slæmt fyrir íþróttina. "Það hefðu verið virkilega slæmar fréttir. McLaren hefði tapað miklu meira en sem sektinni nemur ef þeir hefðu ekki getað keppt," segir Ecclestone.

Ecclestone kemur til fundar íþróttaráðs FIA í París í fyrradag.
Ecclestone kemur til fundar íþróttaráðs FIA í París í fyrradag. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert