Öruggur sigur hjá Räikkönen og yfirburðir Ferrari miklir

Räikkönen fagnar sigri í þriðja mótinu í röð í Spa.
Räikkönen fagnar sigri í þriðja mótinu í röð í Spa. ap

Kimi Räikkönen hjá Ferrari var í þessu að vinna yfirburðasigur í belgíska kappakstrinum í Spa-Francorchamps. Annar varð liðsfélagi hans Felipe Massa. Höfðu ökuþórar McLaren ekkert við þeim að þessu sinni. Fernando Alonso varð þriðji og minnkaði forskot Lewis Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.

Tvenna Ferrari er sú þriðja á árinu, áður komu Räikkönen og Massa í tveimur fyrstu sætum á mark í Magny-Cours í Frakklandi og í Istanbúl í Tyrklandi. Þá vann Räikkönen sinn fjórða sigur á árinu, eða jafn marga og Alonso. Hamilton og Massa hafa unnið þrjú mót hvor.

Verði ekkert úr því að McLaren áfrýji brottvísun sinni úr keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða, og hafi þar sigur, hefur Ferrari tryggt sér þann titil í kappakstrinum í dag þar sem BMW á ekki lengur möguleika á að ná Ferrari að stigum.

Räikkönen fagnar jafnframt sigri í þriðja belgíska kappakstrinum í röð en í fyrri skiptin ók hann fyrir McLaren, 2004 og 2005.

Með því að verða sæti á eftir Alonso minnkaði forskot Hamiltons í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í tvö stig. Sömuleiðis styrktu Ferrariþórarnir stöðu sína; Räikkönen er nú 13 stigum á eftir í þriðja sæti og Massa 20 stigum.

Á blaðamannafundi strax eftir kappaksturinn sögðust þeir enn eiga möguleika í keppni ökuþóra þótt e.t.v væru þeir ekki miklir. Báður sögðust ekki myndu gefast upp meðan stærðfræðilega væri mögulegt að þeir gætu unnið titilinn.

Í ræsingunni reyndi Massa að keppa við Räikkönen um forystu, komst nálægt honum í fyrstu beygju en ekki nóg til að leggja til atlögu.

Eftir það varð Räikkönen ekki ógnað og byggði hann jafnt og þétt upp forskot á keppinautana og stóð aldrei ógn af þeim. Var hann um miðbik kappakstursins orðin 10 sekúndum á undan Massa og 20 sekúndum á undan Alonso.

Alonso reyndi að hanga í Massa til að eiga möguleika á að komast fram úr í fyrsta þjónustustoppi. Slíkir draumar rættust ekki því eftir fyrra stoppið hvarf Massa heimsmeistaranum sjónum.

Dekk við dekk hjá Hamilton og Alonso

Í upphafi fyrsta hrings komu Alonso og Hamilton samsíða út úr La Source-beygjunni og óku dekk við dekk óku hlið við hlið inn í brattann mikla sem Rauðavatnsbeygja nefnist. Þar naut Alonso hins vegar að vera á innri brún brautarinnar og vegna þess og jafnframt þess að bíll hans var örlítið bensínléttari komst hann fram úr Hamilton og hélt þriðja sætinu eftir það.

Hamilton ók fjórum hringjum lengra en Alonsi í annarri lotu í tilraunum sínum til að vinna sig fram úr honum. Náði þó ekki það miklu út úr fisléttum bíl sínum til að það heppnaðist og á nýjum dekkjum í eftir sitt seinna stopp var Alonso einfaldlega of hraðskreiður fyrir Hamilton.

Í annars tíðindalitlum kappakstri háðu Heikki Kovalainen hjá Renault og Robert Kubica á BMW harða keppni um áttunda og síðasta stigasætið. Tók sá fyrrnefndi aðeins eitt þjónustustopp en Kubica tvö og var það lykillinn að því að Kovalainen hlaut stigið.

Sutil lét að sér kveða

Kubica hóf keppni 15. vegna vítis af völdum mótorskipta og vann sig fram úr mörgum á fyrstu hringjum. Lagði hann margsinnis til atlögu við Kovalainen en þær gengu ekki upp.

Þýski ökuþórinn Adrian Sutil hjá Spyker lét heldur betur til sín taka í kappakstrinum og stjarna hans, að Räikkönen frátöldum. Á tiltölulega bensínléttum bíl komst hann upp í 12. sæti á fyrstu hringjunum en varð að lokum í 14. sæti, rétt á eftir Rubens Barrichello hjá Honda.

Úrslit belgíska kappakstursins í Spa-Francorchamps

Staðan í stigakeppni ökuþóra og stigakeppni bílsmiða

Í stigatöflunni yfir keppni bílsmiða er enn að finna stig McLaren en liðinu hefur verið vísað úr henni. Verður leiðrétting töflunnar að bíða, en stig annarra liða breytast ekki við að strika stig McLaren. Fá liðin aðeins stig fyrir það sæti sem bílar þeirra hafna í kappakstrinum nú og næstu mótum, en færast ekki upp. Að því leyti hefur árangur ökuþóra McLaren áfram áhrif á keppni bílsmiða.

Bloggað frá Spa um braut og aðstæður: "Í ægibrattri Rauðavatnsbeygjunni blasir himininn við ökuþórunum"

Räikkönen ekur fyrstur allra yfir endamarkslínuna í Spa.
Räikkönen ekur fyrstur allra yfir endamarkslínuna í Spa. ap
Räikkönen fyrstur fyrir fyrstu beygju og var aldrei ógnað eftir …
Räikkönen fyrstur fyrir fyrstu beygju og var aldrei ógnað eftir það. ap
Mjótt var lengi milli Alonso og Hamilton en í Ferraribílana …
Mjótt var lengi milli Alonso og Hamilton en í Ferraribílana höfðu þeir ekkert að gera í Spa í dag. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert