Räikkönen fyrstur og titilbaráttan galopin upp á nýtt

Räikkönen sigrar við mikinn fögnuð aðstoðarmanna hans.
Räikkönen sigrar við mikinn fögnuð aðstoðarmanna hans. ap
Kimi Räikkönen á Ferrari var í þessu að vinna sigur í kínverska kappakstrinum í Sjanghæ. Fernando Alonso á McLaren varð annar en maður dagsins var Sebastian Vettel á Toro Rosso í fjórða sæti. Vegna brottfalls Lewis Hamilton er keppnin um heimsmeistaratitilinn aftur galopin og þrír ökuþórar geta hreppta titilinn í lokamótinu eftir hálfan mánuð.

Hamilton hefur þrátt fyrir brottfallið enn forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra, er með 107 stig en Alonso 103 og Räikkönen 100. Eiga þeir þrír því allir möguleika á titlinum og því útlit fyrir einstakt lokamót í Interlagos-brautinni í Sao Paulo í Brasilíu eftir hálfan mánuð.

Sigurinn er sá 14. á ferli Räikkönens og sá fimmti á ár. Alonso og Hamilton hafa unnið fjögur mót hvor og Felipe Massa hjá Ferrari þrjú.

Hamilton hóf keppni á ráspól og hvarf öðrum fljótt sjónum, en var of lengi í brautinni á gatslitnum millidekkjum löngu eftir að þurrt var orðið. Er hann loks var kallaður inn til dekkjaskipta ók hann of hratt í aðreininni, náði ekki beygjunni inn á bílskúrasvæðið. Lenti út í malargryfju en ákafar tilraunir brautarvarða til að ýta honum upp úr henni báru ekki árangur.

Fram að þessu stefndi allt í öruggan sigur Hamiltons og að hann yrði krýndur yngsti heimsmeistari sögunnar í Kína. Reyndar hafði Räikkönen dregið hann uppi og komist fram úr hálfum hring áður en Hamilton hugðist skipta um dekk. Um tíma var hann orðinn 17 sekúndum á undan Alonso en það forskot gufaði nær upp á einum þremur til fjórum hringjum fram að hinu ætlaða þjónustustoppi Hamiltons.

Hamilton var með minnst bensín toppþóranna fjögurra og tók sitt fyrra bensínstopp á 15. hring. Räikkönen ók fjórum hringjum lengur og tókst á þeim tíma að minnka forskot Hamiltons úr níu sekúndum í fjórar.

Á þessu stigi var orðin uppstytta en brautirnar þó nógu rakar og sleipar svo ökuþórar McLaren og Ferrari tóku enga áhættu og héldu áfram á millidekkjum. Eftir nokkra hringi byrjuðu ökuþórar sem aftar voru að setja þurrdekk undir bíla sína og jókst hraði þeirra mikið.

En spáð var annarri skúr og því tregðuðust McLaren og Ferrari að taka sömu áhættu. Ekkert varð úr skúrinni og var því um seinann er McLaren kallaði loks Hamilton inn á 31. hring en þá voru afturdekk hans orðin slitin inn að striga.

Alonso vann sig fram úr Massa nokkru áður og hélt öðru sætinu naumlega þótt hann yrði lengur í brautinni áður en hann skipti yfir á þurrdekk. Tók hann að sækja á Räikkönen en um síðir hætti bilið að minnka og Ferrariþórinn ók til öruggs sigurs.

Tímasetning þjónustuhlés Sebastians Vettel hjá Toro Rosso heppnaðist fullkomlega. Hann vann sig alla leið upp í fjórða sæti úr því sautjánda, sem er sérdeilis athyglisvert hjá nýliða með aðeins nokkur mót undir belti. Toro Rosso átti sinn besta dag frá upphafi er Vitantonio Liuzzi varð sjötti, en hann beitti tveggja stoppa áætlun.

Jenson Button hjá Honda var ekki atkvæðamikill framan af í bleytunni en eftir að hann skipti yfir á þurrdekk var öldin önnur og hann setti vað eftir annað hraðasta hring. Komst um tíma upp í fjórða sæti og ógnaði jafnvel Massa en varð undir lokin að taka aukastopp og bæta bensíni á bílinn. Endaði hann engu að síður í fimmta sæti.

Räikkönen í fyrsta sinn á efsta þrepi verðlaunapallsins í Sjanghæ.
Räikkönen í fyrsta sinn á efsta þrepi verðlaunapallsins í Sjanghæ. ap
Alonso og Räikkönen samfagna hvor öðrum í Sjanghæ.
Alonso og Räikkönen samfagna hvor öðrum í Sjanghæ. ap
Alonso ekur yfir marklínuna í öðru sæti.
Alonso ekur yfir marklínuna í öðru sæti. ap
Vettel var maður dagsins í Sjanghæ.
Vettel var maður dagsins í Sjanghæ. mbl.is/redbullracing
Hamilton þiggur far heim í bílskúr McLaren eftir að hann ...
Hamilton þiggur far heim í bílskúr McLaren eftir að hann féll úr leik í Sjanghæ. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina