Schumacher sætir rannsókn

Schumacher æfir sig í dag á Wembley í London fyrir …
Schumacher æfir sig í dag á Wembley í London fyrir kappakstur meistaranna á morgun. ap

Michael Schumacher á yfir höfði sér lögreglurannsókn vegna einhvers mest umfjallaða aksturs hans í seinni tíð; akstur níu manna leigbíls af gerðinni Opel í Þýskalandi fyrir nokkrum dögum.

Lögreglan og saksóknarar í Coburg í Þýskalandi telja að lögbrot hafi verið framið og hafa stefnt fyrir sig bæði Schumacher og leigubílstjóranum Tuncer Yilmaz, sem ljóstraði upp um ferðina frægu.

Yilmaz sagði svo frá í fréttum sem farið hafa um alla heimsbyggðina að Schumacher hafi verið kominn í tímaþröng og óskað eftir því við hann að fá að keyra leigubílinn sjálfur út á flugvöll.

Hann sagði Schumacher hafa „botnað“ bílinn alla leið út á flugvöll, ekki slegið af í beygjum  og tekið fram úr öðrum bílum „á ótrúlegustu stöðum“ í Coburg.

Yilmaz sagði að auk þess að borga 60 evru gjald eins og mælir kvað á um hafi hann gefið honum 100 evrur að auki fyrir að leyfa sér að keyra bílinn svo hann gæti komið sér og fjölskyldunni út á flugvöll í tæka tíð.

Með þessu þykir Yilmaz hafa framið lögbrot því óheimilt mun vera að farþegi keyri leigubíl. Á hann því yfir höfði sér refsingu auk Schumachers, ef sannað þykir að þeir hafi gerst sekir um lögbrot.  

„Við erum að skoða málið og hvað nákvæmlega átti sér stað,“ segir talsmaður lögreglunnar í Coburg við staðarblaðið Neue Presse.  

Sjálfur sagðist Schumacher undrandi á fréttaflutningi af máli þessu á blaðamannafundi í London í dag en þar keppir hann í kappakstri meistaranna, sem fram fer á Wembley á morgun. Sagði hann málið hafa verið blásið upp úr öllu valdi og „aldrei hafi minni fluga verið gerð að stærri fíl.“

mbl.is