Hamilton á ráspól en meistarar byrja aftarlega

Hamilton á leið til fyrsta sætis í tímatökunum í Melbourne.
Hamilton á leið til fyrsta sætis í tímatökunum í Melbourne. ap

Lewis Hamilton hjá McLaren vann fyrsta ráspól vertíðarinnar en líklega kostuðu smá mistök undir lok hringsins Robert Kubica og BMW sinn fyrsta pól á ferlinum. Heimsmeistararnir Kimi Räikkönen og Fernando Alonso komust ekki í lokakeppnina og byrja keppni á morgun í miðjum hópi.

McLarenliðið fagnaði tvölfalt því Heikki Kovalainen komst upp fyrir Felipe Massa hjá Ferrari í lokin og tryggði sér þriðja sætið. Áfall fyrir Ferrari sem talið hefur verið með hraðskreiðustu bílana. Og ekki bætti úr skák að Räikkönen fékk ekki að taka þátt í annarri og þriðju lotu tímatökunnar þar sem hann kom ekki bíl sínum heim í bílskúr í fyrstu lotu vegna bilunar. Féll bensínpressa í mótornum með þessum afleiðingum.

BMW-bílarnir létu aldrei til sín taka á vetraræfingum en gerðu það hins vegar í Melbourne, því auk Kubica varð Nick Heidfeld í fimmta sæti. Stefndi hann um tíma ofar en varð á endanum 58 þúsundustu úr sekúndu lengur með hringinn en Massa.

Kubica setti besta tíma á fyrsta og öðru tímasvæði á lokahringnum og stefndi á fyrsta ráspól sinn og liðsins. Í hraðri hægri beygju undir lok hringsin var ferðin hins vegar full mikil svo hann lenti útfyrir í rykið og tapaði einhverjum sekúndubrotum á því.

Mistökin kostuðu hann tvímælalaust ráspólinn, svo litlu munaði á lokatíma hans og Hamiltons. McLarenþórinn ók af öryggi og á leiðinni á pólinn bætti hann millitíma Kubica.

Heimamaðurinn Mark Webber á Red Bull var öflugur í fyrstu lotu en féll úr leik í byrjun þeirrar næstu vegna bilunar í hægri frambremsu. Liðsfélagi hans David Coulthard hélt uppi heiðri liðsins og varð á endanum  áttundi.

Toyota átti tiltölulega góðan dag því báðir náðu þeir Jarno Trulli og Timo Glock í lokalotuna og hefja keppni í sjötta og níunda sæti.

Frammistaða þýskra ökuþóra vekur athygli því auk Heidfelds varð Nico Rosberg hjá Williams í sjöunda sæti, Glock í níunda og Sebastian Vettel á Toro Rosso í því tíunda en hann gat ekkert reynt sig í lokalotunni vegna bilunar í olíudælu.

Fernando Alonso hjá Renault komst ekki í lokalotuna. Á æfingunni rétt fyrir tímatökurnar setti hann þó þriðja besta tímann, rétt á eftir BMW-mönnum, og virtist til alls líklegur. Hefur hann keppni í 12. sæti, milli Rubens Barrichello og Jensons Button hjá Honda.

Lítið vantaði á að Honda kæmist í lokalotuna og er allt annar gáll á liðinu í upphafi vertíðar í ár en í fyrra.

Vertíðin byrjar hins vegar ekki vel fyrir Renault því Nelson Piquet varð aðeins 21., eða milli Super Aguri bílanna.

Eftir er að sjá hvort betra sé að vera rétt utan 10 fremstu eða rétt innan þess hóps því tanka má þá bíla sem ekki komast í lokalotuna. Býður það upp á útfærslur keppnisáætlunar er fleytt gæti mönnum upp um einhver sæti. Þurfa bílar í fyrstu 10 sætum að líkindum að taka sitt fyrsta þjónustuhlé mun fyrr en aðrar þar sem bílar þeirra eru eitthvað léttari af bensíni.

Niðurstaða tímatökunnar varð annars sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Lota 1 Lota 2 Lota 3 Hri.
1. Hamilton McLaren 1:26.572 1:25.187 1:26.714 14
2. Kubica BMW 1:26.103 1:25.315 1:26.869 15
3. Kovalainen McLaren 1:25.664 1:25.452 1:27.079 13
4. Massa Ferrari 1:25.994 1:25.691 1:27.178 12
5. Heidfeld BMW 1:25.960 1:25.518 1:27.236 16
6. Trulli Toyota 1:26.427 1:26.101 1:28.527 17
7. Rosberg Williams 1:26.295 1:26.059 1:28.687 21
8. Coulthard Red Bull 1:26.381 1:26.063 1:29.041 18
9. Glock Toyota 1:26.919 1:26.164 1:29.593 17
10. Vettel Toro Rosso 1:26.702 1:25.842 18
11. Barrichello Honda 1:26.369 1:26.173 13
12. Alonso Renault 1:26.907 1:26.188 10
13. Button Honda 1:26.712 1:26.259 13
14. Nakajima Williams 1:26.891 1:26.413 13
15. Webber Red Bull 1:26.914 0 8
16. Räikkönen Ferrari 1:26.140 3
17. Fisichella Force India 1:27.207 9
18. Bourdais Toro Rosso 1:27.446 10
19. Sutil Force India 1:27.859 9
20. Sato Super Aguri 1:28.208 9
21. Piquet Renault 1:28.330 6
22. Davidson Super Aguri 1:29.059 9
Hamilton fagnaði eftir tímatökurnar í Melbourne.
Hamilton fagnaði eftir tímatökurnar í Melbourne. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert