Kristján Einar fimmti í sínum flokki í fyrsta formúlu-3 móti

Upphaf fyrri kappakstursins í Oulton Park í dag.
Upphaf fyrri kappakstursins í Oulton Park í dag.

Kristján Einar Kristjánsson varð fimmti af átta keppendum í sínum flokki er hann þreytti frumraun sína í formúlu-3 kappakstri á móti sem fram fór í Oulton Park brautinni í Englandi í dag.

Kristján Einar varð aðeins sekúndu á eftir fjórða manni í landsflokknum en liðsfélagi hans hjá Carlin, Andrew Meyrick, var í nokkrum sérflokki.  Er hann mjög reynslumikill kappakstursmaður en Kristján Einar nýliði í þessari grein.

Keppendur í bæði alþjóðaflokknum og landsflokknum eru ræstir af stað samtímis en þeir voru alls 27. Varð Kristján Einar í 19. sæti í heildina af 22 sem komust í mark. Fimm bílar luku ekki keppni en væta var er kappaksturinn fór fram.

Eknir voru 18 hringir og lagði fyrsti maður, Oliver Turvey - enn einn liðsfélagi Kristjáns Einars en í alþjóðaflokknum - þá að baki á 30:48,3 mín. Í þeim flokki eru bílarnir nokkru öflugri en í landsflokknum, en Kristján Einar ók vegalengdina á 31:58,2 mín og var meðalhraði hans  146,3 km/klst.

Viktor Þór Jensen var ekki meðal þátttakenda í dag, en samkvæmt heimildum formúluvefjar mbl.is mun hann hefja keppni á annarri mótshelgi, eftir hálfan mánuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina