Raunveruleg innbyrðis staða liða birtist í Barcelona

Heidfeld við æfingar á BMW-bílnum í Barcelona í síðustu viku.
Heidfeld við æfingar á BMW-bílnum í Barcelona í síðustu viku. ap

Willy Rampf, tæknistjóri BMW, segir að kappaksturinn í Barcelona næsta sunnudag muni endurspegla raunverulega stöðu keppnisliðanna í formúlu-1.

Til leiks mæta liðin í þessu fyrsta móti í Evrópu með talsverðar uppfærslur í keppnisbílunum. Reyndu liðin þær breytingar á bílunum við æfingar í Barcelona í síðustu viku.

Forsvarsmenn liða segja jafnan að fyrstu mótin þrjú segi ekki nógu vel til um stöðu mála; bíða þurfi fyrsta mótsins í Evrópu og þeirra fyrstu umfangsmiklu endurbóta sem þá eiga sér stað á bílum.

„Ég get vart beðið þess að sjá hvernig málin æxlast í Barcelona því öll liðin prófuðu endurbætur þar í síðustu viku.   Allir hafa bætt sig, en lykil spurningin er hversu mikið miðað við keppinautana. Þess vegna verður þetta áhugaverður kappakstur. Hann mun gefa vísbendingar um það sem koma skal næstu vikur og mánuði,“ segir Rampf.

„Við erum mjög ánægðir með betrumbætur okkar og ættum því að hafa við toppliðunum sem hingað til,“ bætir hann við í aðdraganda Spánarkappakstursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina