Kristján Einar varð þriðji í Monza

Kristján Einar l.t.h. á verðlaunapallinum í Monza. Í miðjunni Jay …
Kristján Einar l.t.h. á verðlaunapallinum í Monza. Í miðjunni Jay Bridges og l.t.h Hywel Lloyd. mbl.is/fota

Kristján Einar Kristjánsson varð þriðji í kappakstrinum í landsflokki hinnar bresku formúlu-3 sem fram fór síðdegis í hinni sögufrægu braut Monza á Ítalíu.

„Ég er mjög ánægður að vera hér, finnst reyndar að það hefði mátt gerast fyrr. Vissulega var leitt að verða af öðru sætinu eftir góða keppni við Hywel,“ sagði Kristján Einar á blaðamannafundi eftir kappaksturinn.

Kappaksturinn út í gegn háði hann tvísýnt og hart einvígi við hinn velska Hywel Lloyd sem tókst að nota sér kjölsogið til að komast fram úr að endingu.

„Ég er mjög glaður að hafa náð þessu takmarki. Í huga mér kom ekkert annað til greina en að fara á þennan fræga pall á Monza. Sérstaklega af því að ég var á leiðinni þangað þegar bíllinn bilaði í fyrri kappakstrinum í gær og ég ætlaði ekki að bíða í heilt ár eftir næsta tækifæri,“ sagði Kristján Einar.

„Ég er innilega þakklátur öllum mínum mönnum hjá Carlin og stuðningsaðilunum, en ég væri ekki hérna nema fyrir fjölskylduna mína og þennan frábæra bakhjarl sem ég á. Róbert Wessmann á dálítið mikið í þessum bikar,“ sagði Kristján Einar ennfremur.

Eftir mótin tvö í Monza er hann í fjórða sæti í stigakeppni ökuþóra með 40 stig. Við verðlaunum sínum tók hann úr hendi breska ökuþórsins John Surtees, sem varð nokkrum sinnum heimsmeistari á mótorhjólum á árunum 1956, 1958, 1959 og 1960 og heimsmeistari í formúl-1 árið 1964.

Með árangrinum brýtur Kristján Einar blað í keppni sinni í formúlu-3 því þetta er í fyrsta sinn sem hann stendur á verðlaunapalli.

Með þessu skipar Kristján Einar sér á bekk með Viktori Þór Jensen og Sverri Þóroddssyni. Viktor Þór vann einn sigur í landsflokknum í formúlu-3 í fyrra og varð auk þess tvisvar í öðru sæti og tvisvar í þriðja.

Sverrir keppti í formúlu-3 á sjöunda áratugnum en hún var þá næsta formúla fyrir neðan formúlu-1. Komst hann tvisvar á verðlaunapall og var aðeins hársbreidd frá sigri, einmitt í Monza.

Góð frammistaða Kristjáns Einars var sárabót  fyrir Carlin-liðið því liðsfélagi hans Andy Meyrick, sem verið hefur ósigrandi í flokknum til þessa og vann fjögur fyrstu mótin lauk hvorugum kappakstrinum í Monza vegna áreksturs.

Meyrick hóf kappaksturinn fremstur í landsflokknum en Kristján Einar í öðru sæti. Sinn fyrsta sigur í landsflokknum vann Bretinn Jay Bridger, sem hóf keppni þriðji og annar varð Hywel Lloyd er var áttundi á rásmarki.

Meyrick er efstur að stigum í keppni ökumanna í landsflokknum með 84 stig, Bridger með 72 og Lloyd 67 en hann aflaði 35 stiga í Monza með sigri í gær og öðru sæti í dag.

Viktor féll úr leik

Viktor Þór Jensen keppti í alþjóðaflokknum í Monza í dag, en lauk ekki keppni. Féll hann úr leik ásamt fimm ökumönnum öðrum í hópárekstri á fyrsta hring. Sjálfur slapp hann ómeiddur en bíllinn laskaðist talsvert. Vonir standa þó til að lagfæra megi hann fyrir næsta kappakstur sem fram fer á Rockingham-brautinni í Bretlandi eftir viku.

Kristján Einar (aftar) glímir í Monza við Jay Bridges sem …
Kristján Einar (aftar) glímir í Monza við Jay Bridges sem ók til sigurs í landsflokknum. mbl.is/fota
Kristján Einar á leið út úr fyrstu beygju í Monza.
Kristján Einar á leið út úr fyrstu beygju í Monza. mbl.is/fota
Kristján Einar á ferð í Monza.
Kristján Einar á ferð í Monza. mbl.is/fota
Kristján Einar Kristjánsson komst í fyrsta sinn á pall í …
Kristján Einar Kristjánsson komst í fyrsta sinn á pall í formúlu-3.
Viktor Þór í harðri keppni í Monza.
Viktor Þór í harðri keppni í Monza. mbl.is/jamesbearne
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert