Snilldarsigur hjá Vettel í erfiðri Monzabrautinni

Vettel fagnar á verðlaunapalli í Monza.
Vettel fagnar á verðlaunapalli í Monza. ap

Sebastian Vettel hjá Toro Rosso var í þessu að vinna sigur í ítalska kappakstrinum. Með jómfrúarsigrinum er hann jafnframt yngsti ökuþór sögunnar til að vinna kappakstur í formúlu-1, einungis 21 árs. Ók hann við erfiðar aðstæður af stakri snilld en aðeins er rúmt ár frá því hann þreytti frumraun sína í formúlu-1. Annar varð Heikki Kovalainen hjá McLaren og þriðji Robert Kubica hjá BMW.

Vettel hóf keppni af ráspól, hinum fyrsta á ferlinum, og var eiginlega aldrei ógnað. Hann ók mun hraðar en næstu keppinautar og byggði hratt upp 10 sekúndna forskot á Kovalainen. Hélst það bil meira og minna milli þeirra allan kappaksturinn, silfurör McLaren var í mesta lagi jafn fljót og Toro Rosso-bíllinn.

Eins og Vettel var Kovalainen  aldrei ógnaði í öðru sætinu.

Felipe Massa hjá Ferrari og Lewis Hamilton hjá McLaren, sem heyja harða keppni um heimsmeistaratitil ökuþóra, urðu í sjötta og sjöunda sæti.

Hamilton hóf keppni fimmtándi og eftir nokkra hringi á eftir Kimi Räikkönen hjá Ferrari, sem lagði af stað fjórtándi, lét hann til skarar skríða. Tók fram úr hverjum keppinautnum af öðrum og var um skeið kominn upp í annað sætið. Var á 26. hring aðeins sekúndu á eftir Vettel en átti þá reyndar eftir að stoppa.

Aðstæður í brautinni bötnuðu smám saman, og voru Kubica og Alonso  fyrstir til að skipta yfir á millidekk, en þeir óku 30 hringi fyrir sitt fyrsta og eina stopp. Batnandi veður varð og til þess að Hamilton, sem lagði upp með eitt stop, neyddist til að stoppa öðru sinni og skipta yfir á millidekk. Rann þar með pallsæti eða jafnvel sigur honum úr greipum.

Renault upp fyrir Toyota í keppni bílsmiða og Toro Rosso upp fyrir Red Bull!

Með árangri Alonso hefur Renault dregið Toyota uppi að stigum í keppni bílsmiða, bæði er með 41 stig. 

Og, það sem meira er, með sigri Vettels skaust Toro Rosso upp fyrir móðurliðið, Red Bull, í keppni bílsmiða í fyrsta sinn. Þar munar nú einu stigi, 27:26.

Massa lauk keppni í sama sæti og hann hóf keppni í, eða því sjötta. Minnkaði hann forskot Hamiltons í keppni ökuþóra um eitt stig, í 78:77. Tókst ekki að nýta sér að hefja kappaksturinn níu sætum framar en  Hamilton, sem lagði af stað fimmtándi.

Ferrari ríður ekki feitum hesti frá Monza

Heimakappaksturinn var Ferrari ekki gjöfull því Räikkönen varð aðeins níundi. Kom hann aldrei við sögu og var lengst af kringum 13.-14. sæti. Vann sig þó upp um nokkur á lokahringjunum og setti þá hraðasta hring dagsins. Og þar sem McLaren hlaut 10 stig í dag en Ferrari aðeins 3 helmingaði enska liðið forskot Ferrari í keppni bílsmiða, en þar er staðan nú 134:129.

Ítalski kappaksturinn hófst í fyrsta sinn í um 30 ár með því að öryggisbíll fór fyrir keppendum. Hvarf hann úr brautinni eftir tvo hringi. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í Monza féll aðeins einn bíll úr leik. Þar átti í hlut Giancarlo Fisichella á Force India, sem braut framvæng sinn með því að aka aftan á David Coulthard á Red Bull.

Á sama tíma og Vettel fagnar undraverðum árangri harmar liðsfélagi hans, Sebastien Bourdais, hlut sinn. Bilaði bíllinn á rásmarkinu og ekki tókst að koma honum í gang aftur fyrr en keppinautarnir voru orðnir hálfum öðrum hring á undan.

Úrslit kappakstursins í Monza

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Vettel vann sinn fyrsta ráspól og jómfrúarsigur í Monza.
Vettel vann sinn fyrsta ráspól og jómfrúarsigur í Monza. ap
Vettel sigri hrósandi og við hlið hans er Kovalainen, sem ...
Vettel sigri hrósandi og við hlið hans er Kovalainen, sem varð annar í Monza. ap
Köflótta flagginu veifað er Vettel ekur yfir endamarkslínuna í Monza.
Köflótta flagginu veifað er Vettel ekur yfir endamarkslínuna í Monza. ap
Vettel og liðsstjórinn Gerhard Berger fagna í Monza.
Vettel og liðsstjórinn Gerhard Berger fagna í Monza. ap
Keppendur óku fyrstu tvo hringina á eftir öryggisbíl.
Keppendur óku fyrstu tvo hringina á eftir öryggisbíl. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina