Lánið lék við Alonso

Alonso fagnar á verðlaunapalli í fyrsta sinn á árinu.
Alonso fagnar á verðlaunapalli í fyrsta sinn á árinu. ap

Fernando Alonso á Renault var í þessu að vinna sigur í fyrsta kvöldkappakstri sögunnar í formúlu-1. Annar í Singapúr varð Nico Rosberg á Williams og þriðji Lewis Hamilton á McLaren. Er þetta fyrsti mótssigur Renault í tvö ár og fyrsta sinn sem Alonso kemst á verðlaunapall á árinu.

Segja má að lánið hafi leikið við Alonso að þessu sinni er öryggisbíll var kallaður út í brautina. Eftir að hafa verið hraðskreiðastur á æfingum í gær og fyrradag bilaði bensíndæla í bílnum í tímatökunum svo hann varð að hefja keppni í 15. sæti. Uppgjöf var þó ekki í spilunum því úr því ákvað hann að sækja með lítilli bensínhleðslu og á mýkri dekkjunum.

Vann hann sig fram úr nokkrum bílum í ræsingunni og fyrstu hringjum. Tók fyrstur þjónustustopp og var í því er félagi hans Nelson Piquet skall utan í vegg svo að kalla varð öryggisbílinn út.

Á því hagnaðist heimsmeistarinn fyrrverandi því skyndilega var hann orðin meðal fremstu. Þeir sem á undan voru áttu ýmist eftir að stoppa eða taka út refsingu fyrir að skjótast inn að bílskúr meðan þjónustusvæðið var lokað vegna öryggisbílsins. 

Rétt eftir miðbik kappakstursins var Alonso orðin fyrstur og jók smám saman forystu sína. Þegar 11 hringir voru eftir var hann 18-19 sekúndum á undan og virtist öruggur um sigur.

Það forskot gufaði hins vegar upp er öryggisbíllinn var aftur sendur út í brautina, nú vegna ákeyrslu Adrians Sutil hjá Force India á öryggisvegg. Skyndilega voru Rosberg og Hamilton í skottinu á honum.

Frá þeim tókst Alonso að slíta sig strax og öryggisbíllinn fór úr brautinni, byggði upp sex sekúndna forskot á tveimur hringjum og var aldrei ógnað. Rosberg hélt sömuleiðis öðru sætinu og náði með því sínum besta árangri á ferlinum – og það þrátt fyrir akstursvíti.

Liðsfélagi hans Kazumi Nakajima varð í áttunda sæti og því báðir Williamsþórarnir í stigasæti.

Hamilton eykur forystuna og McLaren upp fyrir Ferrari í keppni bílsmiða 

Í svækjunni í Singapúr sætti Hamilton sig við þriðja sætið fremur en taka áhættu á óhappi við að reyna akstur fram úr Rosberg. Styrkti hann stöðu sína mjög í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra, jók forskotið á Felipe Massa hjá Ferrari í 7 stig, 84:77. Massa leið martröð eftir að hafa haft örugga forystu fyrstu 15 hringina.

Eftir að hafa beðið eftir því að þjónustureinin opnaðist vildi ekki betur til en svo hjá honum en að hann tók af stað áður en áfyllingu var lokið. Reif því bensínslönguna með sér og varð að bíða drjúga stund fjarri bílskúr Ferrari meðan Kimi Räikkönen var þar þjónustaður. Þegar vélvirkjar liðsins komu loks tók það þá drjúga stund að losa slönguna. 

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Massa veittu dómarar mótsins liðinu akstursvíti fyrir að hleypa honum af stað beint í veg fyrir Adrian Sutil sem var að koma inn að sínum bílskúr. Varð Massa því að aka aukaferð gegnum bílskúrareinina í refsingarskyni.

Räikkönen var öflugur á seinni helmingi kvöldsins en slengdi bílnum utan í vegg þegar fjórir hringir voru eftir. Þar með fékk Ferrari engin stig í keppninni í dag, sem er sjaldgæft þar á bæ. Og missti liðið forystuna í stigakeppni bílsmiða til McLaren, en á þeim munar nú einu stigi, 135:134.

Úrslit kappakstursins í Singapúr

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Alonso létt í Singapúr.
Alonso létt í Singapúr. ap
Rosberg hefur aldrei áður orðið annar á mark í formúlu-1.
Rosberg hefur aldrei áður orðið annar á mark í formúlu-1. ap
Gamlir liðsfélagar og féndur, Alonso og Hamilton, stinga saman nefjum ...
Gamlir liðsfélagar og féndur, Alonso og Hamilton, stinga saman nefjum á pallinum í Singapúr. ap
Massa rýkur af stað með bensínslönguna í eftirdragi.
Massa rýkur af stað með bensínslönguna í eftirdragi. ap
Renaultliðið fagnar sigri í Singapúr.
Renaultliðið fagnar sigri í Singapúr. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina